Flestir vilja ná velgengni á einhverjum sviðum í lífinu. Sumir vilja ná góðu líkamlegu formi, aðrir vilja ná langt í starfsframa, enn aðrir vilja eiga í góðu hjónabandi og eiga gott fjölskyldulíf. En hvert er leyndarmálið á bakvið velgengni?

Frumkvöðullinn Jim Rohn sagði eitt sinn: „Success is nothing more than a few simple disciplines, practiced every day.“

Ef þú vilt ná árangri, þá þarftu að fylgja ákveðnum skrefum til þess. Þetta eru ekki eldflaugavísindi, það er afar sjaldan hægt að stytta sér leið og í mjög fáum tilfellum mun einhver koma og rétta þér velgengni upp í hendurnar. Nema að þú sért Paris Hilton.

Ef við horfum á fólk sem státar af gífulegri velgengni á sínum sviðum, eins og Oprah Winfrey, Bill Gates og Beyoncé, þá getum við öll verið sammála um það að þetta fólk hefur unnið hart fyrir sínu. Vissulega spilar heppni þarna inn í, en ef þessir einstaklingar hefðu sest niður og ákveðið að fá sem mest fyrir sem minnst, þá væru þau ekki þar sem þau eru í dag. Svo megum við ekki gleyma því að hæfileikar spila einnig stórt hlutverk þarna. Þú getur líklega ekki orðið frægur söngvari ef þú kannt ekki að syngja (sorrý, en satt).

Hvers vegna æfir íþróttafólk alla daga vikunnar? Hvers vegna eyðir námsmaðurinn mörgum klukkutímum daglega á bókasafninu? Hvers vegna vinnur lögmaðurinn oft 18 tíma vinnudaga? Hvers vegna eyðir fólk í hjónaböndum tíma í „óþægileg“ samtöl sem bæta sambandið?

Vegna þess að þetta fólk vill ná árangri.

Success-Quotes-17

En hvað aðgreinir fólk sem nýtur velgengni og nær árangri?

  • Það gerir það sem það hefur áhuga á. Ef þú hefur ekki ástríðu fyrir því sem þú gerir, mun það væntanlega falla um sjálft sig eða valda þér óhamingju á einhverjum tímapunkti
  • Það setur sér skammtíma- og langtímamarkmið
  • Það skipuleggur tíma sinn
  • Það gerir eitthvað á hverjum degi, til þess að færast nær þessum markmiðum
  • Það einbeitir sér ekki að því að vera sem oftast inni í þægindahringnum; það fer út fyrir rammann
  • Það fagnar „litlu“ sigrunum
  • Það er tilbúið að fórna einhverjum hlutum, eins og til dæmis einhverjum hluta afslöppunar eða jafnvel peningum, fyrir markmiðin
  • Það hættir ekki þó það geri mistök. Mistök móta okkur og hjálpa okkur að læra og þroskast
  • Það hættir ekki þó að það mæti mótlæti; það gefst ekki upp
Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is