Vöruna fékk ég að gjöf óháð umfjöllun

Ég er dálítið háð því að safna að mér góðum ilmvötnum og elska að eiga ilmi sem henta skapi, veðri og tækifæri. Verandi kamelljón þá finnst mér ótrúlega gaman að geta skipt á milli daga. Ég átti síðasta Escada ilmvatnið mitt fyrir nokkrum árum en ég elskaði að nota það þegar ég vildi eitthvað létt, ávaxtakennt og ferskt, enda eru Escada ilmirnir þekktir fyrir það síðan þeir gáfu út fyrsta ilminn árið 1993. Þeir eiga að minna mann á sumarið og jákvæðu tilfinninguna sem hellist yfir okkur þegar við flýjum skammdegið og sólin fer að skína. Ég veit ekki með ykkur en þetta hljómar mjög vel fyrir mér og ég get ekki beðið eftir því að fá sumarið aftur!

Nýjasti sumarilmurinn er 25 ára afmælisútgáfa og heitir Fiesta Carioca en hann einkennist af ástaraldin, hindberjum og sumarblómum. Stúlkurnar framan á pakkningunni einkenna sumarilmi fyrri ára. Toppnóturnar eru ástaraldin, hindber og fjólulauf. Hjartað samanstendur af appelsínublómum, blómum ástaraldins og jasmínu og grunnnótunar eru musk og sedrusviður.

Það besta við ilminn er að hann er ótrúlega léttur og ávaxtakenndur og „eltir“ mann ekki, ef þið skiljið hvað ég á við. Mér líður eins og ilmvatnið falli vel að mér án þess að hverfa. Mér finnst samt ótrúlega gott að þefa öðru hvoru af peysunni eða bolnum og finna góða ilminn hellast yfir mig.

Escada ilmvötnin henta öllum aldri en slá oftast í gegn hjá yngri kynslóðunum. Þau væru því líka tilvalin í fermingarpakkann og tækifærisgjafir, en líka á viðráðanlegu verði ef maður mill splæsa einu á sjálfa sig.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is