Kevin Murphy á Íslandi kostar vinninga í gjafaleiknum og vörurnar fékk ég að gjöf 

Nú dregur heldur betur til tíðinda hjá okkur á Pigment.is, en HEILT ÁR er síðan við opnuðum síðuna okkar í dag. Eins og ég sagði betur frá á Snapchat fyrr í kvöld (pigment.is), þá fóru blóð sviti og tár í opnun síðunnar og mikill tilfinningarússíbani átti sér stað. Við höfum allar unnið hörðum höndum að því að gera Pigment vefinn að því sem hann er í dag og takmark okkar er að hann veiti lesendum afþreyingu, skemmtun og að við séum samkvæmar sjálfum okkur. Ef ég má vera dálítið væmin þá finnst mér ég ótrúlega lánsöm að vinna með þeim stelpum sem blogga hér með mér. Einnig byrjuðu þrjár aðrar ótrúlega góðar vinkonur mínar hér með mér (Hafdís Inga, Hulda Einars og Aldís Vala) í fyrra sem duttu út vegna anna, en þeim á ég einnig mikið að þakka og sakna þeirra mikið hér á síðunni.

En án ykkar kæru lesendur og fylgjendur væri þetta aldrei hægt. Þið gerið þetta að raunverleika og við viljum þakka ykkur fyrir hliðhollustuna, samfylgdina og öll jákvæðu samskiptin í gegnum undanfarið ár.

unnamed-8

En að smá vöruspjalli: Á dögunum fékk ég sendan frábæran pakka frá hágæða hárvörumerkinu Kevin Murphy sem innihélt fjóra hluti: Angel Wash sjampó, Angel Rinse hárnæringu, Shimmer Shine hársprey og Body Builder hárfroðu. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Kevin Murphy ástralskur hárgreiðslumeistari sem stofnaði eigið merki. Vörurnar eru þekktar fyrir að vera „cruelty free“ með stimpil frá Peta, náttúrulegar og sérstaklega umhverfisvænar. Þær eru einnig paraben og sulphate fríar og innihalda mild innihaldsefni sem gerir þær að einstaklega góðum kosti fyrir þá sem þola illa kemískar/sterkar vörur.

Ég get með sanni sagt að ég elska þessar hárvörur, en Kevin Murphy merkið prófaði ég fyrst árið 2013 minnir mig og hef verið fastakúnni síðan. Vörurnar sem ég fékk í pakkanum átti ég þó eftir að prófa og þær komu mér skemmtilega að óvart. Ég er algjör ofnæmispési þegar það kemur að hárvörum og fæ útbrot, exem og flösu í hársvörðinn við minnsta tilefni. Vörurnar verða samt að innihalda góðan raka þar sem að ég er með litað ljóst hár. Angel sjampóið og næringin sem ég fékk eru sérstaklega ætlaðar fyrir fíngert, litað og þunnt hár en þær auka umfang hársins ásamt því að veita raka og verndun. Ég hélt satt að segja að ég þyrfti ekki neitt til að auka umfang hársins míns þar sem að það er einstaklega þykkt, en vörurnar komu skemmtilega að óvart og núna get ég varla ímyndað mér að nota aðra gerð (þó ég noti auðvitað líka fjólubláa sjampóið mitt).

Shimmer Shine spreyið er eitthvað sem hefur LENGI verið á óskalistanum mínum. Það er svokallað olíusprey sem eykur glans hársins til muna og lyktin af því inniheldur einhver ávanabindandi efni að mínu mati, en hún er hrikalega góð. Hárið mýkist allt upp og verður glansandi fallegt. Body Builder froðan er ætluð til blásturs og eykur umfang (volume) ótrúlega mikið, en mér finnst æðislegt að nota hana áður en ég fer eitthvað út.

Ég mæli með því að þið kíkið á Facebook síðu Kevin Murphy á Íslandi HÉR, en þar er hægt að fræðast meira um vörurnar. Einnig er hægt að fara á heimasíðu Kevin Murphyen þar er hægt að taka próf finna út hvaða hárvörur frá merkinu henta þér best. Vörurnar eru til dæmis seldar á Sápan.is og á Sprey hárstofu í Mosfellsbæ. 

Þau hjá merkinu voru svo ótrúlega góð að gefa okkur auka vörupakka til þess að leyfa einum lesenda að njóta góðs af í tilefni afmælis okkar, svo að við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með á Facebook og taka þátt. Pakkinn inniheldur Angel Wash sjampó, Angel Rinse hárnæringu og Shimmer Shine hársprey. 


7e373fb9f326d044974962b91fd718a5

 Endilega fylgið leiðbeiningum á Facebook til að taka þátt! 

gunnhildurbirna-1

Endilega líkið við Facebook síðu okkar HÉR – Einnig erum við á Snapchat undir Pigment.is 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is