Spurningin sem slær öllum öðrum spurningum við á mínum ferli hingað til er klárlega: „En þarf ég nokkuð að kaupa rándýran hreinsi/body lotion/hárnæringu þegar ég get bara notað kókosolíu?“ Þetta er eitthvað sem ég hef margrætt við bæði fólk sem ég þekki sem og viðskiptavini og ákvað því að henda í einn örsnöggan og léttan pistil um málefnið. Einnig mæli ég með því að þið kíkið á þessa færslu, en Katrín Sif skrifaði um kókosolíu og hár fyrr á árinu.

Kókosolían

Kókosolía er vissulega náttúruleg. Hún er æt olía sem unnin er úr innviðum þroskaðra kókoshneta, sem vaxa á pálmatrjám. Það eru nokkur ár síðan kókoshnetuæðið gerði vart við sig hér á landi sem og í öllum heimilum og síðan hefur hún verið notuð til steikingar, á húðina, hárið, þrifa, til inntöku, í kaffi og örugglega einhverra fleiri hluta sem ég kann ekki skil á. Eftir að hafa hlustað í mörg ár á heilsumógúla og sjálfskipaða húðsérfræðinga segja að kókosolía sé fundin upp af englum og sé hægt að nota hana í allt og að hún hjálpi til við fitumissi, ónæmiskerfið og ótal fleiri hluti, þá langar mig að koma nokkrum atriðum „á hreint“ hvað hana varðar. Það er svo hverjum og einum í sjálfvald sett hvort viðkomandi tekur mark á þessu hjá mér og ég ætla ekki að standa hér (eða sitja) og þykjast vera næringarfræðingur, heldur er ég bara manneskja sem hefur mikinn áhuga á málefninu og hef bæði reynslu og hef lesið mér til.

Kostir

Kostir kókosolíu eru alveg nokkrir. Hún er eins og áður sagði, náttúruleg og hentar til dæmis vel sem staðgengill fyrir smjör til steikingar, sérstaklega fyrir fólk sem vill af einhverjum ástæðum forðast mjólkurafurðir. Ég á til dæmis alltaf krukku uppi í skáp til að nota til steikingar og í hrákökur. Svo er hún líka bragðgóð svo að hægt er að nota hana í ýmsa gómsæta rétti og bakstur. Hún hefur verið talin innihalda nokkuð „holla“ fitu, en hún inniheldur þó frekar há level af mettaðri fitu svo það má deila um það. Samtök eins og World Health samtökin, FDA (bandaríska matar- og lyfjaeftirlitið), HHS (United States Department of Health and Human Services), AHA (American Heart Association) og fleiri hafa til dæmis mælt GEGN reglulegri inntöku hennar vegna þessa. Samkvæmt þessari grein hefur hún meiri áhrif á kólesteról en mjúk ómettuð fita (t.d. ólívuolía).

Ekki svo miklir kostir

Og svo að tilgangi pistilsins: Húðin. Nú ætla ég að gerast djörf og afrita svar sem ég setti á Facebook. Málið með kókosolíu að eðli málsins samkvæmt þá harðnar hún í kulda. Ímyndið ykkur svo að þrífa andlitið með henni. Hún situr ofan í húðholunum (þó maður þrífi hana af) og stíflar þær, sérstaklega þegar maður fer út í kuldann. Einnig getur hún stíflað tárakirtlana ef hún er notuð til að taka af augnfarða. Þar að auki samanstanda allar fitur og olíur af sameindum sem kallast fitusýrur. Allar olíur og fitur sem settar eru í húðvörur eru sérstaklega gerðar til þess að fara á húðina, smjúga inn í hana og stífla ekki. En sameindirnar sem kókosolían inniheldur eru alltof stórar til þess að henta á húðina, enda ætluð til inntöku en ekki útvortis. Það er samt kannski ekkert að því að nota kókosolíu til að þrífa augnfarða af í neyð, en ég myndi þá frekar nota olíu sem harðnar ekki eins og t.d. ólívuolíu, möndluolíu, vínberjasteinsolíu eða aðra grænmetisolíu. Svo eru jojoba olía, fræolía og fleira mjög sniðugar þar sem að þær líkja eftir húðfitunni okkar. Það sama gildir um bað, smábörn og fleira.

Svo til að svara spurningunni: Ég (ásamt öðrum förðunar- og snyrtifræðungum) mæli ekki með því að nota kókosolíu á húð, hár eða til þess að þrífa af farða. Það þarf þó ekki að kaupa eitthvað rándýrt, heldur duga vel þær vörur sem ykkur hentar og eru sérstaklega gerðar fyrir húðina. Ég mæli samt með því að kíkja á innihaldsefni og velja vel. Svo vona ég bara að ég fái ekki reiðan múg fyrir utan húsið mitt með kókosolíukrukkur!

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is