Færslan er ekki kostuð 

Í kjölfar færslanna um mismunandi húðgerðir mátti ég til að skrifa örlítið til ykkar um húðumhirðu og gefa góð ráð sem ættu að gagnast flestum ef ekki öllum.

Við erum öll með húð og hún er okkar stærsta líffæri, en það eru ansi margir sem sniðganga húðumhirðu í daglegu lífi. Ef við sleppum því að þrífa og bóna bílinn okkar, þá lítur lakkið frekar illa út á endanum – ekki satt? Einnig vil ég minna á (þrátt fyrir algengan misskilning) að karlmenn eru hvorki húðlausir né undanskyldir reglum um húðumhirðu.

Ég tek fram að í þessari grein mun ég einungis tala um húðumhirðu en ég mun ekki mæla með vörum. Fyrir nánari vörumeðmæli getið þið smellt á hlekkina neðst í færslunni.

Hreinsun

Þrífið húðina vel á kvöldin (ásamt léttri hreinsun á morgnana). Ef þið málið ykkur þá er nauðsynlegt að þrífa hana í tveimur skrefum; farðahreinsun og húðhreinsun sem hentar ykkar húðgerð. Nú ætla ég svo að vera leiðinleg: Eins mikið og mann langar að trúa því þá er ekki nóg að hreinsa húðina bara einu sinni og það er ekkert til sem heitir „all in one“ hreinsir. Í þau skipti sem ég hef ætlað að nota svoleiðis þá enda ég alltaf með einhver óhreinindi í húðinni.

Ég mæli með að nota fyrst Michellar vatn eða annan farðahreinsi og svo húðhreinsi þar á eftir. Ef þið kjósið að nota andlitsvatn (sem ég mæli eindregið með), þá er það síðasta skref hreinsunar. Andlitsvötn loka húðinni eftir hreinsun ásamt því að næra hana og losna við allar leifar af óhreinindum ef þau skildu sitja eftir.

Næring

Notið gott krem, viðeigandi fyrir ykkar húðgerð. Það er nauðsynlegt til að verja húðina fyrir veðri, umhverfisáhrifum, óhreinindum, þurrki og svo mætti lengi lengi telja. Krem veita ekki bara raka heldur draga þau líka úr línumyndun, jafna áferð húðarinnar og vernda hana. Það er ekki endilega nauðsynlegt að eiga sér næturkrem þó svo að það sé auðvitað gott.

Serum og olíur er svo ótrúlega góð viðbót til að nota með kremum til þess að fá meiri virkni og næringu. Serum vinna dýpra ofan í húðina en krem og virkja neðra húðlagið, en andlitsolíur eru svo æðislegar til þess að bæta raka við húðrútínuna. Ég mæli eindregið með því að byrja að nota gott augkrem upp úr tvítugu til þess að næra augnsvæðið og sporna við línumyndun.

Djúphreinsun/Djúpnæring

 Djúphreinsið húðina reglulega (að minnsta kosti 1x-2x í viku) með kornaskrúbbi/ensýmskrúbbi/ávaxtasýruskrúbbi til að hjálpa henni að losna við óhreinindi og dauðar húðfrumur. Góðir maskar eru einnig nauðsyn að mínu mati, en hægt er að fá óteljandi tegundir af möskum fyrir hverja húðgerð. Rakamaski finnst mér einnig nauðsyn einu sinni til tvisvar í viku, sérstaklega á veturnar.

Treystið fagfólki

Ekki taka við hvaða ráðleggingum/heimaráðum sem er af netinu eða frá hvaða fólki sem er. Spyrjið frekar snyrtifræðinga eða jafnvel förðunarfræðinga sem hafa lesið sér til og unnið við fagið.

Fjárfestið í húðinni

Ekki spara þegar það kemur að vörum sem þið setjið á húðina ykkar. Ekki misskilja mig; hjá mörgum ódýrari merkjum er hægt að fá vörur sem virka vel á sanngjörnu verði en athugið vel innihaldsefni, umsagnir og hvernig áhrif vörurnar hafa á húðina.

Vatn, mataræði & hreyfing

Vatnsdrykkja hefur ótrúlega margt að segja fyrir fallega og ljómandi húð. Hreyfing skiptir einnig gríðarlegu máli. Með henni eykst blóðfæði til húðarinnar og hún svitnar út óhreinindum. Einnig þarf varla að nefna að allt sem við borðum fer beinustu leið út í húðina. Svo er auðvitað góð regla að gæta að streitustjórnun í lífinu.

Þið getið lesið nánar um vöruráðleggingar í færslunum mínum um feita húð, blandaða húð og þurra húð.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is