Færslan er ekki kostuð 

Við einbeitum okkur mikið að hárinu í sturtu sem er alveg frábært, en eigum oft til að gleyma því að dekra við andlit og líkama. Sturtan er frábær staður til þess að skrúbba sig hátt og lágt, taka farða af og hreinsa húðina. Ég tala nú ekki um ef maður nýtir tækifærið og kveikir á kertum eða er með góða tónlist á meðan.

Mig langar að deila með ykkur fjórum vörum sem ég nota mjög mikið í augnablikinu þegar ég fer í sturtu, en þær eru allar í miklu uppáhaldi og koma úr ólíkum áttum.

Andlit

Þrátt fyrir að vera algjör húðumhirðufíkill, þá finnst mér eitthvað mjög þægilegt við það að fjarlægja farða og hreinsa andlitið í sturtu. Þessar tvær vörur hafa vakið mikla lukku hjá mér undanfarnar vikur, en ég keypti þennan farðahreinsi frá merkinu Douglas á ferðum mínum um Amsterdam á dögunum. Essential Cleansing Unbelievevable Make-up Remover Balm nær öllum farða af, hvort sem það er á augum, andliti eða vörum. Ég nudda honum einfaldlega yfir allt andlitið í sturtunni og skola af. Gæti ekki verið einfaldara! Hann fæst erlendis og ég mæli með því að þið kíkið á hann.

Global Anti-Aging+ Instant Refinishing Facial frá Estée Lauder nota ég síðan á eftir um tvisvar til fjórum sinnum í viku til þess að ná öllum dauðum húðfrumum í burtu. Stundum nota ég annan hreinsi frá Skyn Iceland á milli ef ég er mikið máluð, þar sem að þessi frá Estée Lauder er tæknilega séð djúphreinsir. Hann fæst í völdum verslunum Hagkaups og apótekum. 

Líkami

Við skulum hafa það á hreinu að mig langaði í allt úr The Ritual Of Anahata línunni frá The Rituals úti í Amsterdam, en ég lét nægja að kaupa þessa sturtufroðu ásamt dásamlegu te-i með kanil og engifer. Allar línurnar frá Rituals taka speki sína og ilmi úr ólíkum menningum. Anahata þýðir „the heart chakra“ og línan merkir í raun „open your heart,“ en spekin kemur frá forn Indlandi. Ilmurinn er dásamlegur og angar af rósavið og greni. Ég féll algjörlega fyrir þessu merki, enda aðhyllist ég mikið hindúisma og búddisma og þessi lína hitti beint í mark hjá mér. Rituals merkið fæst erlendis.

Coco Rose líkamsskrúbburin frá Herbivore Botanicals hefur lengi verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér og verið fastagestur í sturtunni. Mér finnst að vísu lang best að nota hann þurran á þurra húð áður en ég fer undir vatnið, en hann tekur í burtu allar húðfrumur og skilur húðina eins og smjör. Lyktin skemmir ekki fyrir en hún er mild rósalykt með smá kókoskeim. Ég elska líka allt frá þessu merki! Fæst hjá Nola 

Ég mæli með því að þið eyðið nokkrum mínútum í að dekra við líkama og andlit næst þegar þið farið í sturtu – það er svo nauðsynlegt.

Þið finnið mig á Instagram undir @gunny_birna

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is