Í haust sjáum við fallega tóna, allt er í boði og hefur hártískan verið mjög fjölbreytt síðustu tvö árin.

Millisíddin er að ráða ríkjum um þessar mundir. Stutt eða styttra hár er að koma hægt og rólega inn en ekki eins áberandi og við erum að sjá millisíddina. Millisítt hár er frá viðbeini og upp að höku.
Mjúkar bylgjur eða liðir eða slétt hár eru einnig áberandi. Um að gera að fá sér gott sléttujárn og æfa sig í að gera fallega liði með því.

Flæði og mýkt

Hreyfing er vinsæl í haust og vetur og hefur aukist mikið í sumar líka. Fleiri vilja hreyfingu bæði í litum hvort sem það eru fíngerðar strípur hér og þar eða tveir litir settir í hárið; dekkri tónn setur í rótina á meðan ljósari og jafnvel annar litatónn er so settur yfir endana. Eftir sumarið er líka fallegt að geyma upplituðu endana eða setja glansskol yfir þá á meðan við dýpkum rótina. Klippingarnar eru líka með hreyfingu og eru mjög fallegar og mjúkar; nokkrar styttur í hárinu og við andlitið.

Ákveðinn tónn og skarpari lína

Dökki liturinn er að verða dekkri en vanalega. Við erum komin í djúpan súkkulaði tón og alveg út í svartan tón. Ef það er einn tónn í gangi þá er oft klippinginn styttri og ákveðnari. Ljósir tónar eru ennþá hvítir og bjartir. Grár sést lítið sem ekkert en við erum að sjá bleika, ferskju og „orange“ tóna. Þessir tónar eru rómantískir og kalla fram ljóma og mýkt í húðinni.

Skuggi, dýpt og ljómi í enda

Það að vera með rót er enn í tísku en þetta er ekki eins og á krepputímanum þar sem þú ert með þinn eigin lit í rótinni, við erum alls ekki þar núna. Við viljum fá fallega, djúpa og áberandi tóna í rótina á meðan endarnir fá að vera bjartari. Hunangstónar, bleikir og rauðir tónar eru mjög vinsælir í haust en einnig erum við að sjá sandlit og fölfjólubláa tóna.

Ég vaknaði svona

Við elskum lyftingu, hald, fyllingu og stamleika í hárinu þennan vetur. Við viljum að hárið líti út eins og við hefðum bara verið að hoppa framúr. Muna þarf eftir því að dekra við hárið samt sem áður; djúpnæra og nota olíur eða leave-in næringar til þess að viðhalda heilbrigði hársins þar sem lakk, þurrsjampó og duft þurrka aðeins upp hárið.

Helmingur upp, helmingur niður

Þessi snúður er æði en hann er samt spari. Við notum hann þegar við erum með slæman hárdag eða þurfum að þvo hárið seinnipartinn. Hárið er ennþá töff og þú ert að sýna lit og línu.

Katrín Sif

Katrín Sif er hárgreiðslukona og einn af eigendum Sprey Hárstofu. Jákvæðni lýsir henni best og hún hefur áhuga á öllu sem tengist hári og tísku. Snap: spreyharstofa