VARÚÐ! MYNDIRNAR Í FÆRSLUNNI ERU EKKI FYRIR VIÐKVÆMA

FÆRSLAN ER EKKI KOSTUÐ

Uppáhalds árstíminn er genginn í garð sem inniheldur bæði Halloween og jólin. Ég er ekkert minni aðdáandi Halloween heldur en jólanna. Síðastliðin ár höfum við skorið út grasker og sett kerti inn í og leyft Möttu að taka þátt. Í fyrra leist Möttu nákvæmlega ekkert á þessar hundakúnstir og var smeyk við Herra Grasker þrátt fyrir að ég reyndi að gera hann eins vinalegan og hægt var. Það var ekki fyrr en ég skellti jólasveinahúfu á greyið að hún tók hann í sátt. Nú þegar hún er árinu eldri býst ég við að hún sé kannski til í að drullumalla aðeins meira með mér í graskerinu. En svona til þess að allir séu vel undirbúnir fyrir hátíðahöldin þá ákvað ég að gera sár og taka myndir af ferlinu skref fyrir skref.

UNDIRBÚUM HÚÐINA

Til þess að sárið haldist sem best á húðinni er gott að sótthreinsa húðina áður þar sem sárið á að vera. Própanólið hreinsar húðfituna í burtu. Hvaða sótthreinsispritt sem er dugar. Ég hafði handklæði undir sem mér þótti ekki vænt um (og já það er hægt að bindast handklæðum tilfinningalegum böndum).

LIQUID LATEX

Ég keypti liquid latex í Hókus Pókus þar sem það fæst í minni og stærri pakkningum. Ég bar það á með smjörhníf en málningarspaði dugar líka og er eflaust betri í þetta verk. Það er allt í lagi þó latexið krumpist aðeins á endunum en best er að reyna að slétta úr því þar sem það endar svo það samlagist húðinni sem best.

SÁRIÐ BYGGT UPP

Til þess að þykkja sárið notaði ég klósettpappírsarkir sem ég reif niður. Klósettpappírinn límist við latexið á meðan það er enn blautt. Ég gerði þetta nokkrum sinnum, setti latex og klósettpappír til skiptis þangað til ég náði ákjósanlegri þykkt á sárinu.

SÁRIÐ GRUNNAÐ

Næst grunnaði ég sárið með meiki og einnota svampi. Hægt er að nota hvaða meik sem er en reynið að velja lit sem passar ykkar húðlit.

SÁRIÐ LITAÐ

Þessi augnskuggapalletta er frá Be Bella Cosmetics og heitir 35G. Hægt er að nálgast hana á Shine.is. Hún kemur sér mjög vel þegar ég er að gera sár því hún inniheldur svo marga húðlitaða brúna tóna, rauða, vínrauða og svarta. Burstarnir sem ég nota eru ódýrir burstar sem mér þykir ekki vænt um. Það er alltaf hætta á því að burstar eyðileggist í svona drullumalli.

SÁRIÐ OPNAÐ

Ég nota alltaf beitt lítil skæri til að klippa latexið í sundur. Farið bara varlega svo þið stingið ykkur ekki.

Það er ekkert að óttast því þetta er engin nákvæmnisvinna. Best er að hafa það í huga að marið er mest þar sem sárið opnast og þar fara dekkri litirnir svo lýsist sárið eftir því sem það fer fjær opinu.

DÝPKUM SÁRIÐ

Þessi varalitapalletta er frá MAKE UP FOR EVER og hefur nýst mér vel í sáragerð. Annars gengur hvaða rauði varalitur sem er ef hann er bara nógu líkur blóði.

Ég málaði varalitnum inn í sárið og aðeins í kringum opið. Lykilatriði er að hylja allt sem er hvítt.

GERVIBLÓÐ

Gerviblóðið fékk ég í Hókus Pókus. Dropateljarann keypti ég í apóteki og baðsvampurinn er úr Tiger. Því grófari svampur því betra.

Ég nota alltaf dropateljarann og leyfi blóðinu að leka frjálslega niður svo það líti sem raunverulegast út. Ég penslaði síðan meira blóði inn í opið með burstanum og aðeins í kringum opið. Ég dýfi svampinum í smá blóð og dúmpa honum aðeins í kring um sárið svo það sé smávegis „splatter effect“ í gangi.

SVERTA

Að endingu dúmpaði ég svörtum augnskugga í kringum opið til þess að dýpka sárið enn frekar.

SÁRIÐ TILBÚIÐ

Svo langar manni alltaf að setja meira og meira blóð að sjálfsögðu því það er skemmtilegast!

SÁRIÐ FJARLÆGT

Þarna er ég búin að rífa sárið af mér. Þið getið notað liquid latex hvar sem er á líkamann en hafið í huga að þegar það er tekið af þá rífur það hár með sér. Ef erfitt reynist að ná því af á einhverjum stöðum er hægt að nota sótthreinsispritt í bómul og nudda latexið af.

Ég vona að þið hafið ekki fyllst óhugnaði af þessum myndum. Munið að þetta er allt í plati!

Gleðilega hrekkjavöku!

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla