Að flytja út ung/ur er ekki eins algengt í dag og það var áður fyrr. Ég tel að ástæðan fyrir því sé óhagstæð leiguverð og fasteignaverð. Það er mjög erfitt að finna húsnæði með viðráðanlegri leigu. Það er líka ekki fyrir hvern sem er að kaupa fasteign á því fasteignaverði í dag. Að því tilefni langar mig til að segja frá nokkrum leiðum til að ná að flytja út á viðráðanlegu verði.

Litla stofan okkar.

Að kaupa notuð húsgögn


Það kom ekki til greina að kaupa ný húsgögn því sófar og annað er mjög dýrt. Það sem hjálpaði okkur mjög mikið í flutningunum var að vita með góðum fyrirvara að við værum að fara flytja. Ég gat þá gert ráðstafanir og skoðað húsgögn á Facebook söluhópum og bland.is. Við vissum nokkurn vegin hvernig húsgögn við þurftum svo ég var með augun opin alls staðar. Ég fann til dæmis góðan notaðan sófa úr Línunni sem ég fékk á undir 10 þúsund krónur.

Sófinn úr Línunni sem ég keypti í gegnum bland.is og sófaborðið sem ég keypti í gegnum facebook sölusíðu.

Aukavinna


Ég og kærastinn minn erum bæði í hlutastarfi með skóla. Ég vinn fastar vaktir en það sem skiptir líka miklu máli er að taka öllum aukavinnum fagnandi. Ég skráði mig til dæmis sem barnfóstra á barnfostra.is sem er virkilega sniðug síða. En ég er að taka að mér að passa börn um helgar þegar pössun vantar.

Borða heima og vera nestaður


Áður en við fluttum borðuðum við mikinn skyndibita og keyptum mikið af tilbúnum mat. Ein máltíð kostar frá 2500-4000kr sem er 17.500-28.000kr á viku! Núna förum við í búð á sunnudögum eða mánudögum og kaupum mat til að eiga í hádegis- og kvöldmat. Einnig eitthvað til að nasla í millimál.

Sjónvarpsskenkurinn sem ég keypti í gegnum bland.is

Selja hluti sem ekki eru í notkun


Ég var búin að sanka að mér alls konar hlutum með árunum sem voru ekki lengur í notkun og ákvað að prófa að selja þá á Facebook söluhópum og bland.is. Það reyndist mikilvægt ákvörðun því ég hef selt mikið af hlutum sem ég hafði ekki not fyrir og græddi smá pening í leiðinni. Ég seldi til dæmis gamla náttborðið mitt sem mér fannst ekki flott lengur og keypti mér nýtt (samt notað) fyrir peninginn.

Ég vona að þetta geti nýst einhverjum! Takk fyrir að lesa x

Alexandra Ivalu

Alexandra er 19 ára Mosfellingur og stundar nám við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Hún er hálf íslensk og hálf grænlensk en hefur búið alla sína ævi hérlendis. Áhugamál Alexöndru eru förðun, útivera, ljósmyndun og hundar. Þið getið fundið Alexöndru á Instagram undir @alexandraivalu.