Tími brúðkaupa er handan við hornið, en yfirleitt byrjar tímabilið upp úr mars/apríl og stendur þar til í september. Þá er ég alltaf þéttbókuð í brúðarfarðanir og flestar ef ekki allar helgar og frídagar fara í brúðkaup úti á landi eða hér í borginni.  Flest brúðkaupin úti á landi eru hjá erlendum brúðhjónum en það er alltaf ótrúlega gaman að kynnast ólíkum menningarheimum og nýju fólki.  Oft erum við förðunarfræðingar og aðrir bókaðir um eitt til eitt og hálft ár fram í tímann svo það er gott að hafa samband tímanlega.

Það eru samt alltaf einhverjar sem kjósa að farða sig sjálfar fyrir stóra daginn eða biðja systur eða vinkonur um að aðstoða sig og þessi færsla er tileinkuð ykkur. Fyrir þær sem leita ekki aðstoðar fagaðila (eða jafnvel fyrir fagaðila sem hafa ekki mjög mikla reynslu í brúðarförðunum) þá eru hér nokkrir góðir punktar sem huga þarf að þegar verið er að hugsa um förðunina.

Rose C. Lee Mynd: Pat Furey Förðun eftir mig

Hvernig útlit viltu?

Það er mikilvægt að ákveða grundvallaratriðin þegar það kemur að förðuninni fyrir svona stóran dag. Viltu mikla þekju á farða eða náttúrulegri áferð? Fílarðu matta húð eða ljóma? Ertu mikið fyrir smokey eða viltu ljósara útlit? Myndirðu vilja svartan eyeliner eða eitthvað mildara?Hvernig varalit viltu vera með?

Gott er að leita að innblæstri á Pinterest eða brúðkaupsbloggum eins og Green Wedding Shoes og eins skoða myndir af þér þegar þú hefur verið að fara eitthvað fínt, en þú vilt líkjast þér sjálfri og vera með förðun sem þér líður vel með.

Ég að farða Kristjönu vinkonu mína Mynd: Eygló Árnadóttir

Prufuförðun

Prufuförðun er ekki bara þegar þú ert með förðunarfræðing, heldur er hún alltaf góð til þess að hjálpa þér að ákveða betur hvernig þú vilt vera. Þá ertu laus við allt stress á stóra deginum og veist hvaða vörur þú ætlar að ganga í. Prófaðu þig áfram með liti, augnhár, áferðir og fleira.

Augnhár eða ekki augnhár?

Fyrir brúðkaupsdaginn er gott að vera búin að taka ákvörðun um gerviaugnhár. Ég mæli persónulega með (og nota lang mest) stök gerviaugnhár sem er raðað eftir augnhárarótinni, en þau gefa aukna lengd og fyllingu en eru samt náttúruleg. Ef þú vilt vera með gerviaugnhár en ert ekki vön að setja þau á, þá er gott að næla sér í smá æfingu nokkrum vikum fyrir daginn.

Brianna Porreca Mynd: Donal Boyd

Vertu tilbúin

Vertu búin að finna hinn fullkomna varalit og kaupa allt sem þú þarft að kaupa vel fyrir brúðkaupsdaginn. Hafðu hlutina á stað þar sem þú mannst eftir þeim til þess að lenda ekki í stressi. Einnig myndi ég byrja förðunina tímanlega yfir daginn og bæta þá frekar á.

Ég mæli með því að fjárfesta í góðu púðri til þess að vera með í veskinu ef þú ferð að glansa yfir daginn. Eins er mjög gott að vera með varalitinn og auka maskara (ef þú ert með augnhár er sniðugt að geyma einnig lím og plokkara í veskinu).

Elicia Johnson-Lopez Mynd: With Love and Embers Förðun eftir mig

Undirbúningur húðar

Ég mæli með að hugsa sérstaklega vel um húðina fyrir brúðkaup og fara jafnvel í húðdekur (þó ekki minna en viku fyrir daginn sjálfan). Mataræði, hreyfing og vatnsdrykkja er möst fyrir húðina. Það er svo gott að eiga smá „auka dekur“ áður en þú byrjar að mála þig eins og varaskrúbb eða augngel til þess að draga úr þrota á augnsvæðinu.

Brúðarfarðanir eftir mig

Alexandra
Brianna
Halla Margrét
Aldís
Kristjana

Endilega kommentið undir færsluna eða sendið mér póst á gunnhildur@pigment.is ef þið hafið einhverjar spurningar!

Þið finnið mig á Instagram undir @gunnybirna 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is