Færslan er ekki kostuð – Stjörnumerktar vörur voru fengnar að gjöf til prófunar

Í þessum kafla ætla ég að fara yfir sjálfbrúnku- og líkamsvörurnar sem stóðu upp úr á árinu. Það var um að velja í ýmsum flokkum og eftirtaldar eru þær sem skoruðu hæst að mínu mati árið 2017.

Líkamsvörur

Hreinsun

Sturtusápan sem varð fyrir valinu hjá mér þetta árið er frá merkinu Rituals, en ég fékk hana erlendis. Sápan eða gelið freyðir og minnir pínulítið á raksápu þegar hún kemur úr brúsanum, en dreifist enn betur vegna þessa. Mín er úr limited edition línunni Rituals of Anahata sem dregur nafn sitt úr indverskum fræðum og Búddhisma en Anahata merkir „the heart chakra.“ Þar sem að ég er mjög hlynnt Búddhisma og ilmurinn var einnig dásamlegur þá náði þessi lína mér alveg. Húðin verður tandurhrein og ilmandi.

Fyrir líkamsskrúbb þá nota ég lang oftast Pink Himalayan Salt Scrub frá merkinu Eco By Sonya, en hann er einfaldlega dásamlegur. Fyrir utan það að lyktin er sítruskennd og himnesk, þá verður húðin silkimjúk eins og smjör eftir notkun.

Raki & endurnýjun

Ultra Hydration Neroli líkamsolían frá Herbivore Botanicals er svo mín uppáhalds líkamsolía síðustu ár! Dexter hundurinn minn elskar hana að vísu líka og ég fæ ekki frið fyrir honum þegar ég ber hana á mig en það er annað mál. Lyktin sem mér finnst best er Citrine en hún er einfaldlega með mjög léttum, kremkenndum sítrus ilmi. Olían inniheldur Jojoba olíu sem líkir einna mest eftir húðfitunni okkar svo að hún heldur rakanum vel í húðinni og það er nóg að nota hana í annað eða þriðja hvert skipti eftir sturtu (eða bara þegar maður vill auka dekur).

Gloomaway Body Souffle* frá Origins inniheldur svo eina bestu lykt af bodylotion-i sem ég veit um! Það mýkir upp húðina og gefur einstakan raka, en „souffle“ áferðin á því er miklu léttari og lúxuskenndari en áferðin af venjulegu líkamskremi. Maður þarf ótrúlega lítið af því á  stórt svæði og það mýkir, gefur raka og endurnærir húðina.

Ég bjóst í raun aldrei við að setja svitalyktareyðir í svona lista en þennan verð ég einfaldlega að tilnefna þar sem að ég mun líklega aldrei nota neinn annan! Roll-On Deodorant frá Real Purity er ólíkur öllum öðrum sem ég hef prófað og ég held að ég hafi ekki fundið svitalykt af mér síðan ég byrjaði að nota hann einu sinni á dag fyrir nokkrum mánuðum. Blanda af lífrænum ilmolíum gefa bæði góða lykt, stífla ekki svitaholur og passa að engar leifar sitji eftir á húðinni. Svitalyktareyðirinn er að sjálfsögðu lífrænn, álfrír, paraben – og sílíkonfrír.

Þá er það handáburðurinn! Make A Difference Rejuvenating Hand Cream frá Origins er búið að vera í uppáhaldi hjá mér síðan árið 2014 og ég hef endurnýjað það hvað eftir annað. Hann mýkir hendurnar endalaust og heldur rakanum við sem er nauðsynlegt á veturnar á Íslandi.

Brúnkuvörur

Ekki má gleyma brúnkuvörunum sem hafa verið mér sérstaklega nauðsynlegar í vetur. Face Tan Water frá Eco By Sonya hefur slegið í gegn hjá öllum sem það hafa prófað, enda frábær vara. Vatnið er í raun toner sem inniheldur hylauronic sýru sem kemur húðinni í jafnvægi, en líka andlitsbrúnka sem gefur fallegan lit og ljóma. Liturinn er mildur og hægt að byggja upp. Ég elska þessa vöru!

Brúnkuspreyið sem er í uppáhaldi og ég nota verulega mikið er frá Marc Inbane. Spreyið drefist ótrúlega vel á auðveldan hátt og gefur fallegan, náttúrulegan lit en spreyið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér í andlit og á bringu. Ég mæli eindregið með því að nota hanska með notkun brúnkuvara til þess að forðast flekki. Þar komum við einnig að besta brúnkuhanska sem ég hef prófað sem er einnig frá Marc Inbane. Hann er einstakur að því leyti að hann er þykkur, silkimjúkur og endist ásamt því að dreifa litnum vel.

Instant brúnkan sem varð fyrir valinu er St. Tropez Instant Tan. Brúnkukremið kemur í handhægri túbu og er fullkomið ef maður vill auka lit eða ef það gleymist að setja á sig brúnkukrem og maður þarf að redda málunum í flýti. Brúnkukremið kemur í handhægri túbu og þvæst strax af í sturtu.

Brúnkufroðan sem ég nota mest er án efa frá Nuvatan! Froðan endist að eilífu, bæði í brúsa og á húð og dreifist afskaplega vel. Lyktin af henni er engan veginn brúnkukremslykt heldur minnir hún helst á ávexti. Alltaf þegar ég vil verða fallega brún allstaðar og vil að liturinn haldist vel á í nokkra daga þá nota ég þessa.

Næsti listi verður tileinkaður förðunarvörum – fylgist vel með!

Þið finnið mig á Instagram undir @gunnybirna

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is