Um daginn eignaðist ég afskaplega fallega vöru sem ég verð einfaldlega að segja ykkur betur frá, en hana fékk ég senda til prófunar. Eins og þið vitið þá hef ég alltaf verið mikill aðdáandi merkisins La Mer og finnst að allir ættu að minnsta kosti einu sinni að prófa vörur úr merkinu þar sem að þær sameina öflug innihaldsefni, lúxus og virkni.

The Cleansing Oil

Varan sem ég fékk að prófa var The Cleansing Oil, sem er hreinsiolía eins og nafnið gefur til kynna. Ég hef prófað þær margar yfir ævina og var spennt að sjá hvort að þessi myndi standa undir merkinu og virka vel.

Útlit og innihald

Fyrir það fyrsta þá er olían ein fallegasta vara sem ég hef augum litið, eins og þið sjáið vel á myndunum. Hún inniheldur náttúrulegar perluagnir sem gera áferðina sanseraða en hún er einnig fallega sægræn á lit. Einnig inniheldur hún hið fræga The Miracle Broth™ sem veitir húðinni næringarefni ásamt því að gefa raka.

Virkni

Virknin er æðisleg. Fyrir það fyrsta þá er olían ótrúlega róandi og tekur allan farða af á mildan hátt, hvort sem það er á augum eða andliti. Hún ertir ekkert augun (trúið mér, ég er í eilífri baráttu við ertandi augnhreinsa) og skilur húðina eftir silkimjúka, hreina og engan veginn olíukennda. Algjör dekurvara og hver vill ekki gott dekur um leið og farðinn er tekinn af?

Þegar olían er bleytt þá umbreytist hún í mjólkurkenndan hreinsi sem er æði fyrir þá sem vilja það frekar. Mér finnst þó best að nota hana beint á þurra húð og nudda allan farða af í hringlaga hreyfingum áður en ég skola af með vatni og þvottapoka.

Ég get tvímælalaust mælt með hreinsiolíunni frá La Mer, en hún er einnig rosalega falleg í jólapakkann fyrir einhverja sem þér þykir vænt um.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is