Færslan er ekki kostuð – vörurnar keypti greinahöfundur sjálf

Fyrir nokkrum mánuðum rakst ég á merki á ASOS sem vakti strax áhuga minn, en fyrir utan það að vera í skemmtilegum „apótekara“ umbúðum voru vörurnar ótrúlega ódýrar og með góðum en öflugum innihaldsefnum. Verandi algjör húðumhirðupervert þá leið ekki á löngu fyrr en ég ákvað að versla mér nokkrar af þessum vörum. Merkið heitir The Ordinary en það er einnig selt á Deciem.com.

Það sem mér finnst einna mest spennandi við merkið er að það er vísindaleg nálgun í vörunum þeirra og verðunum er haldið verulega niðri, en í dag sér maður varla svona verð lengur. Mig langar að segja ykkur aðeins frá því hvað ég keypti mér.

Retinol 1% in Squalane

Retinol er efni sem þynnir húðina og dregur úr öldrungareinkennum eins og fínum línum, örum og gerir húðina almennt fallegri. Ég mæli þó með að fara mjög varlega og jafnvel í mildari formúlu en þá sem ég keypti mér, þar sem að ég er ótrúlega vön allskyns húðvörum, er með sterka húð og varð ekki fyrir mikilli ertingu. Maður finnur þó alveg fyrir því að húðin sé þynnri þegar maður ber á sig virk krem, svo að ég mæli með að prófa sig vel áfram og fara ekki of geyst. Varist einnig að kaupa vörur með Retinol-i sem innihalda vatn þar sem að vatnið skemmir vöruna. Þessi umrædda vara er í hreinni Squalane olíu og inniheldur hvorki plöntuolíur né vatn. Hægt að lesa sér frekar um vöruna og kaupa hana HÉR.

AHA 30% + BHA 2% Peeling Solution

Aftur þá mæli ég með því að þið farið MJÖG varlega í notkun á þessari vöru og takið tímann þegar þið notið hana. Ef þið eruð nýliðar í sýrum mæli ég með að kaupa eittvað mildara til að byrja með. Þetta eru einhverjar sterkustu sýrur sem ég hef prófað á andlitið á mér og þær sviðu talsvert, en húðin verður alveg gordjöss á eftir. Þetta er í raun maski sem maður notar sjaldan og einungis í 10 mínútur í senn áður en maður þvær hann af með þvottapoka. Maskinn fjarlægir óhreinindi, bólur, hjálpar til við ör og minnkar fínar línur með hjálp AHA og BHA sýra. Sjá meira HÉR.

100% Plant-Derived Squalane

Ég elska allar olíur (sérstaklega á veturnar!) og varð að prófa þessa.  Olían er 100% hrein Squalane olía sem er unnin úr plöntum, en hún líkist mikið þeirri olíu sem fyrirfinnst í húðinni okkar. Ég nota olíuna á andlit, í hár, á naglabönd og allstaðar sem rakagjafa og fyrir viðgerð. Sjá meira HÉR.

Caffeine Solution 5% + EGCG

Af hverju að smella koffeini í andlitið á sér? Koffein (í réttu formi) er eitt það besta sem þú getur sett á augnsvæðið fyrir bauga og þrota. Í bland við EGCG sem er unnið úr grænum telaufum er þetta sannkallað undraverkfæri fyrir augnsvæðið en ég hef fundið mikinn mun á sjálfri mér síðan ég byrjaði að nota þetta og finnst ég meira „vakandi“ um augun. Sjá meira HÉR.

Ég mæli með að þið kíkið á The Ordinary ásamt hinum merkjunum á Deciem.com. Þess má einnig geta að verslunin Maí á Garðartorgi hefur hafið sölu á systramerki The Ordinary; Niod sem ég á einmitt eftir að kíkja á sjálf.

Þið finnið mig á Instagram undir @gunnybirna

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is