Færslan er ekki kostuð – Stjörnumerktar vörur voru fengnar að gjöf

Ég held að það hafi ekki farið framhjá neinum að ég elska góðar húðvörur. Að vera ein af þeim sem er með blandaða húð getur verið snúið á köflum. Á veturnar skrælna ég öll upp, en get verið með bólur á sama tíma. Á sumrin er húðin á mér í feitari kantinum og getur fengið bólur (sérstaklega ef ég borða sælgæti!) en getur einnig verið í þurr á enni og í vöngum. Það að finna vörur til þess að halda henni í jafnvægi er því hægara sagt en gert og ég hef sennilega prófað flestar vörur og merki á markaðnum.

Mig langaði endilega að gera lista fyrir ykkur sem deilið þessari baráttu með mér, en ég hef komist að því að raki og olíur skipta lang mestu máli í að halda húðinni í jafnvægi þegar hún er af þessari gerð.

„Oil free“ ekki endilega svarið

Um daginn gerði ég lista fyrir þær sem eru að berjast við þurra húð, en það sama á við um allar húðgerðir að hreinsunin skiptir lang mestu máli. Þegar ég var yngri og með feitari húð og mikið af bólum prófaði ég mikið af „oil free“ vörum til þess að reyna að vinna bug á fitumestu svæðunum. Þær virkuðu lítið fyrir mig og gerðu húðina bara verri. Þegar húðin fær ekki þá olíu og raka sem hún þarf á að halda eða of hart er gengið á hana, bregst hún við með því að fara í offramleiðslu á olíu, sem veldur meiri yfirborðsfitu. Hún verður þá um leið þurrari á þeim svæðum sem eru það fyrir og myndar svokallaða rakaþurrð. Einnig er ótrúlega mikilvægt að djúphreinsa húðina reglulega og fjarlægja dauðar húðfrumur svo að hún geti andað almennilega.

Nokkrar af bestu vörunum fyrir blandaða húð

Untitled

Estée Lauder Advanced Night Repair * – Það þurfa allir gott serum og þetta er eitt af mínum „all time favourites“ sem ég á nánast alltaf í skápnum. Það kemur húðinni í jafnvægi, minnkar húðholur og sýnileg ummerki öldrunar. Fæst í völdum verslunum Hagkaups, apótekum og Sigurboganum. 

Clarasonic Mia 2 * – Ókei, ég er búin að vera að prófa þennan bursta undanfarna daga og er orðin háð honum. Hann hreinsar fullkomlega upp úr húðinni og skilur hana eftir silkimjúka í hvert skipti en alls ekki þurra. Fæst í völdum verslunum Hagkaups og apótekum. 

SKYN Iceland Arctic Oil – Eins og áður sagði, þá þarf húðin olíu til að halda jafnvægi. Þessi hreina olía frá SKYN hefur bjargað lífi mínu undanfarnar vikur og mun að öllum líkindum halda áfram að gera það í vetur. Fæst hjá Nola, í Lyf&Heilsu og á snyrtistofum. 

SKYN Iceland Pure Cloud Cream – Ég er ein af þeim sem skiptir reglulega um rakakrem, en þetta er komið til að vera í baðskápnum. Það veitir æðislegan raka og kemur jafnvægi á fituframleiðslu í húðinni, ásamt því að vinna í ójafnri áferð. Fæst hjá Nola, í Lyf&Heilsu og á snyrtistofum. 

Origins A Perfect World – Þessi froðuhreinsir er ríkur af andoxunarefnum og með æðislegri lykt. Hann tekur í burt öll óhreinindi og mér líður eins og húðin nái að anda eftir að ég nota hann. Fæst í verslunum Hagkaups og apótekum. 

Clinique Smart Custom Repair Eye Treatment *- Það má alls ekki gleyma augnsvæðinu og þetta augnkrem finnst mér algjör snilld. Það finnur í raun út hvaða vandamálum þarf að vinna á (baugar, þurrkur, fínar línur) og „targetar“ þau. Fæst í verslunum Hagkaups og apótekum.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is