Vörurnar eru keyptar af greinahöfundi

Nú þegar langar sumarnætur taka við af köldum vetrarkvöldum er um að gera að velta sér upp úr því hvaða farði endist fram á morgunn. Ég hef marga fjöruna sopið þegar að snyrtivörum kemur og hef komist að þeirri niðurstöðu að þessar vörur eru algjörlega skotheldar.

  1. ANASTASIA BEVERLY HILLS MODERN RENAISSANCE PALETTE

Klárlega bestu kaup síðustu missera. Augnskuggarnir frá ABH fá þvílíkan gæðastimpil frá mér. Þeir eru svakalega „pigmentaðir“ og haldast á allan daginn, auðvelt að blanda þá út og molna ekki niður. Umbúðirnar eru með þeim skemmtilegri en palettan sjálf er úr eins konar flauelisefni sem minnir á gamla tíma. Þemað er endurreisnartímabilið, árin 1300-1700. Nöfnin á augnskuggunum tengjast öll þessu tímabili á einn eða annan hátt. Til að mynda var Vermeer frægur málari og Primavera er frægt málverk endurreisnarinnar.

Fæst HÉR

  1. URBAN DECAY PRIMER POTION

Eftir að ég kynntist þessum augnskuggaprimer þá var ekki aftur snúið. Hann er mjög auðveldur í ásetningu og dregur fram litinn í augnskugganum. Augnskugginn helst fram á næsta dag með þennan að vopni.

Fæst í Hagkaup Smáralind

  1. MAC PRO LONGWEAR FOND DE TEINT

Ef þú vilt að meikið haldist lengur en góðu hófi gegnir þá er þetta varan fyrir þig. Það þarf að hafa hraðar hendur þegar unnið er með þessa vöru því hún þornar mjög fljótt og límist við andlitið. Áferðin er virkilega falleg. Þó nokkra þolinmæði þarf við að hreinsa meikburstann eftir notkun þar sem meikið á það til að festast vel í hárunum, ég mæli með olíukenndum augnfarðahreinsi til þess að ná því betur úr burstanum.

Fæst í MAC Smáralind

  1. LAURA MERCIER TRANSLUCENT LOOSE SETTING POWDER

Eitt vinsælasta bökunarpúður sem komið hefur á markað. Púðrið er silkimjúkt og skilur eftir sig áferð sem minnir á postulín en er ekki þekjandi. Ég nota það yfir allt andlitið þegar ég vil fá góða endingu á farðanum, þess á milli nota ég það mest undir augun til þess að festa hyljara.

Fæst í Sephora

  1. INGLOT AMC EYELINER GEL

Ótrúlega endingargóður eyeliner sem smitast ekki. Fyrirgefur ekki mistök svo auðveldlega svo að vanda verður til verka.

Fæst HÉR

  1. MAC PREP&PRIME FIX+ MAKEUP SETTING SPRAY

Ég úða þessu yfir allt andlitið alveg undir lokin þegar ég er búin að öllu. Jafn úði sem skilur húðina ekki eftir blauta. Þornar mjög fljótt. Algjört lykilatriði til að ná fram góðri endingu.

Fæst í MAC Smáralind

  1. ANASTASIA BEVERLY HILLS CONTOUR KIT – POWDER

Ég nota mest dekkstu litina til þess að skyggja andlitið. Mjög þægileg vara sem hrynur ekki af andlitinu smátt og smátt heldur helst á sínum stað.

Fæst HÉR

  1. NARS CREAMY CONCEALER

Einn besti hyljari sem ég hef prófað. Mjög góð þekja og auðvelt að blanda út. Virkar best ef hann er „settur“ með áðurnefndu bökunarpúðri (Laura Mercier Loose Setting Powder).

Fæst í Sephora

  1. OFRA LONG LASTING LIQUID LIPSTICK

Þessi fer ekkert, þrátt fyrir mat og drykk. Auðveldur í notkun og virkilega falleg áferð.

Fæst HÉR

Ég læt nokkrar myndir fylgja með af förðun þar sem ég notaði þessar vörur.

Þið getið fundið mig á:

Snapchat: annyr

Instagram: Anna Yr Makeup Artist

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, móðir og stjúpmamma, fagurkeri, heklari og föndrari ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrgisla