Í öllum hafsjónum af snyrtivörum sem eru til í dag ákvað ég að skrifa grein um primera sem ég vona að fræði ykkur örlítið um notkun þeirra og hvort ætti að nota þá eða ekki. Ég vil taka fram að þessi grein endurspeglar eingöngu mínar persónulegu skoðanir og reynslu, bæði sem förðunarfræðingur og kona sem notar/kaupir snyrtivörur. Einnig ætla ég að nota erlenda orðið yfir þá sem er algengara en „grunnur“ á góðri Íslensku.

Hvað er primer?

Primer er einskonar grunnur sem þú notar undir farða, augnskugga eða varalit. Mismunandi gerðir eru til fyrir mismunandi svæði andlits og tegundir/undirgerðir eru óteljandi. Tilgangurinn með primer er til dæmis að gera húðina sléttari, mattari eða meira ljómandi, áferð farðans fallegri, lit augnskuggans sterkari, varalitinn sléttari og láta allt saman endast lengur.

Hvenær set ég á mig primer?

Oftast seturðu primer í þriðja skrefi húðumhirðu; á eftir hreinsun og kremum og á undan förðun. Svo er reyndar hægt að fá ýmsa fallega ljómaprimera og olíur sem er einnig hægt að blanda saman við farða, eða primer vötn sem er spreyjað undir eða yfir farðann. Með „hefðbundna“ primera mæli ég með því að bera þá á með bursta.

Er nauðsynlegt að eiga primer?

Alls ekki en þeir geta gert fallega húð og förðun enn fallegri. Ég mæli þó með því að eiga góðan primer á augnvsæðið (augnskuggagrunn) eins og kremskugga eða primer í túbu til þess að augnförðunin endist lengur. Ég nota til dæmis Paint Pot frá MAC á sjálfa mig og alla kúnna undir augnskugga og finnst þeir æðislegir. Allt annað finnst mér persónulega ekki nauðsynlegt en það er auðvitað persónubundið. Besti farðagrunnurinn fyrir mér er góð húðumhirða, gott andlitskrem og gott augnkrem, en primer er í raun algjör aukahlutur til viðbótar við þessi grundvallaratriði. Einnig nota ég stundum Primer olíu frá Smashbox til að blanda saman við og þynna farða. Top Secrets primerinn frá YSL eða Strobe Cream frá MAC verða svo yfirleitt fyrir valinu fyrir fallegan ljóma undir farða, en ég lít meira á þessa hluti sem krem. Hvað varaprimera varðar þá eru þeir mjög góðir til að mýkja upp varirnar ásamt því að fylla upp í sprungur og þess háttar, ásamt því að þeir halda varalitnum betur á vörunum og gefa fallega áferð. En svo er líka hægt að nota góðan varasalva þó að hann haldi litnum ekki eins lengi á og primerinn.

Ég vona að þetta hafi svarað einhverjum spurningum ykkar um primera. Mig langar að lokum að setja inn smá lista af þeim primerum og kremum undir farða sem eru í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Embryolisse Lait Creme Concentré HÉR – Smashbox Primer Water fæst í Hagkaup – MAC Prep+Prime Lip fæst í MAC Kringlunni & Smáralind – Skyn Iceland Pure Pore Minimizer HÉR – Smashbox Primer Oil fæst í Hagkaup – MAC Strobe Cream fæst í MAC Kringlunni & Smáralind – Urban Decay Primer Potion fæst í Hagkaup – MAC Paint Pot fæst í MAC Kringlunni & Smáralind – YSL Top Secrets Instant Moisture Glow fæst í Hagkaup og helstu apótekum 

 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is