Stjörnumerktar vörur voru fengnar að gjöf – Aðrar keypti ég sjálf

Það hlaut að koma að því að ég setti inn eins og einn 2016 lista. Það var talsvert magn af vörum sem fór í gegnum skápana hjá mér á árinu svo að þetta var á engan hátt auðvelt val. Þess vegna gat ég til að mynda ekki valið aðeins EINA vöru í hverjum flokki. En nokkrar vörur stóðu upp úr og mig langar að deila þeim með ykkur. Ég vona innilega að þessi listi hjálpi lesendum sem eiga í vandræðum með að finna sér húðvörur við hæfi.

Á döfinni eru svo listar um bestu förðunarvörurnar, bestu líkamsvörurnar og fleira.

hudvorur2016

Krem

Þetta var líklegast erfiðasti flokkurinn fyrir krem-perrann mig! Ég myndi smyrja tíu kremum á mig á hverjum degi ef það væri ráðlagt og ég spara þau heldur aldrei, sem er talsvert vandamál þar sem að þau klárast alltaf fyrr hjá mér en þau ættu að gera.

La Mer Moisturizing Soft Lotion* fékk ég í lúxusprufu í vetur, en það er eins dásamlegt og þau gerast. Vissulega er það örlítið dýrara en mörg önnur krem, en fyrir þá sem hafa efni á og langar að „tríta“ sig, þá er það fullkomnun. Fæst í Lyf&Heilsu Kringlunni og Sigurboganum. Skyn Iceland Pure Cloud Cream nota ég daglega og heyrir það til undantekninga ef það heimsækir ekki efsta lag húðarinnar á mér á morgnana. Fæst HÉR. Þetta krem veitir ótrúlegan raka án þess að innihalda leiðinlega fitu eða mineral olíu. YSL Top Secrets Moisture Glow* er klárlega mitt uppáhald til að nota undir farða, en það veitir raka og fallegan ljóma ásamt því að mér finnst farðinn hjá mér haldast betur á þegar ég nota það. Fæst í völdum verslunum Hagkaups og apótekum. Ole Henriksen næturgelið hefur verið fastur liður í minni húðrútínu árum saman, en það inniheldur ávaxtasýrur sem koma í veg fyrir bólumyndun og drega saman húðholur. Fæst HÉR. 

Varir

Góður varaskrúbbur og varasalvi eru algjör nauðsyn allan ársins hring, en sérstaklega á veturnar þegar varirnar á mér taka alltaf upp á því að þorna upp og fara svo nokkrum sinnum í hamskipti. Varaskrúbburinn frá Sara Happ er ómissandi síðan ég prófaði hann fyrst í haust, en hann hreinsar allar dauðar húðfrumur af vörunum ásamt því að mýkja þær upp. Fæst HÉR. YSL Top Secrets Lip Perfector* varasalvinn er einnig ætlaður sem varaprimer, en ég nota hann daglega sem rakagjafa á varirnar. Hann mýkir þær mjög vel upp með vönduðum olíum og varnar stórkostlega þurrki. Fæst í völdum verslunum Hagkaups og apótekum. 

Djúphreinsar

Ef þú notar ekki djúphreinsir á húðina, þá ertu að missa af miklu og húðin þín líka. Mínir uppáhalds á árinu voru annars vegar Radiance Boost maskinn frá Bobbi Brown*, sem maður setur á húðina í þrjár til fimm mínútur og nuddar svo af með vatni. Með fínum kornum tekur hann í burtu dauðar húðfrumur, þéttir, veitir ljóma og endurnýjar húðina. Æðisleg lyktin skemmir svo ekki, en hún einkennist af ferskum sítrusilm. Hinn djúphreinsirinn, Nordic Skin Peel frá Skyn Iceland er hreint ótrúlegur, en ég þekki engan sem hefur prófað hann og ekki fílað hann. Ávaxtasýrurnar í skífunum fjarlægja yfirborðsþurrk, taka óhreinindi úr húðholum og varna bólumyndun. Hann gerir sem sagt allt!

Farðahreinsar

Það er nauðsynlegt að þrífa farða af húðinni áður en maður yfirborðshreinsar hana á kvöldin, annað væri eins og að fara í sturtu í öllum fötunum. Makeup Eraser kom skemmtilega að óvart, en ég fékk hann í gjöf frá vinkonu minni um daginn þegar hún kom að utan. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki miklar væntingar og hélt að þetta líktist dýrum þvottapoka, en niðurstaðan var sú að hann tók í burtu ALLAN farða á örskotstundu. Með vatni! Líka erfiðan maskara. Svo að þessi klútur fær 10 af 10 mögulegum hjá mér og mig langar í allar gerðirnar. Fæst HÉR. Franski farðahreinsirinn frá Embryolisse er einnig í miklu uppáhaldi. Hann nær öllum farða af á núll einni með því að setja hann í bómul og strjúka yfir húð, varir og augu. Ég fæ kvíðakast þegar minn er að verða búinn sem ætti að vera ágætis mælikvarði á gæðin sem um ræðir. Svo ertir hann ekki og ætti að vera öruggur fyrir viðkvæma húð. Fæst HÉR. 

Serum

Ég vona að þið séuð enn að lesa, en nokkrir af mínum uppáhalds flokkum eru eftir. Þessi tvö serum eru alltaf til í skápnum hjá mér og ég nota þau til skiptis. Arctic Elexir frá Skyn Iceland er dásamlegt og að mér finnst, ómissandi. Það dregur úr öllum línum á ótrúlegan hátt og jafnar áferð húðarinnar. Fyrir notkunina var ég með frekar djúpar línur á enninu sem hafa minnkað ótrúlega mikið. Fæst HÉREstée Lauder Advanced Night Repair hefur verið fastur gestur hjá mér svo árum skiptir. Það hægir mjög á öldrunareinkennum, mýkir húðina, jafnar hana og gefur ljóma. Fæst í völdum verslunum Hagkaups og apótekum.

Yfirborðshreinsar

Pure Cloud hreinsirinn frá Skyn Iceland* nota ég daglega en hann hreinsar á mildan hátt upp úr húðinni án þess að þurrka hana upp. Fæst HÉR.  Biotherm Foaming Cream hreinsirinn er svo einnig fullkominn fyrir þurra húð en hann freyðir og maður fær frísklegt yfirbragð. Fæst í völdum verslunum Hagkaups og apótekum. 

Maskar

Annar mjög erfiður flokkur. Ef ég hefði mátt ráða þá hefði ég valið um það bil tíu maska – í það minnsta! En þessir þrír stóðu líklega mest upp úr hjá mér og voru hvað mest notaðir. Glamglow Gravity Mud* maskinn er hiklaust einn sá skemmtilegasti og virkasti sem ég hef prófað. Ekki bara er hann silfurlitaður (!!!), heldur er ótrúlega gaman að „peel-a“ hann af í endann. Hann strekkir húðina og minnkar húðholur svo um munar. Yndislegi YSL Youth Liberator* maskinn er svo kraftaverk, en hann slípar húðina, fjarlægir dauðar húðfrumur og gefur manni nýja húð á augabragði. Fullkominn áður en maður er að fara út á lífið. Origins Drink Up* Intensive maskinn er sennilega eitthvað sem flestir ættu að kannast við núna, en flestir bloggarar á Íslandi hafa þegar fjallað um hann. Rakabomba sem lyktar dásamlega og verndar húðina – þegar maður vaknar er hún eins og ný. Fást allir í völdum verslunum Hagkaups og Apótekum. 

Rakasprey

Fix Plus frá MAC hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan árið 2011. Það inniheldur steinefni sem vekja húðina, gefa raka og draga saman húðholur. Ég á það alltaf og get ekki lifað án þess. Fæst í MAC Kringlunni og Smáralind. Rakaspreyið frá Embryolisse hefur svo átt hug minn og hjarta í haust, en það er bæði hægt að nota sem sprey og tóner, bara með því að skipta um tappa! Fæst HÉR.

Augnkrem

Gott augnkrem er gulli betra, sagði ég einhverntíman. Nokkur þeirra hafa verið í uppáhaldi og það var eiginlega ekki séns að ég gæti valið eitt. Svo ég valdi þrjú. Það fyrsta er frá Origins og er úr línunni Ginzing. Það vekur augnsvæðið ásamt því að draga úr þrota og baugum. Næsta er augnserumið frá Bioeffect. Ég var búin að eiga það í einhvern tíma þegar ég byrjaði að nota það fyrir um tveimur vikum síðan og hefur líkað mjög vel. Það dregur mikið úr línum ásamt því að ég finn einnig mun á þrota og baugum. Bæði kremin fást í völdum verslunum Hagkaups og apótekum. Skyn Iceland Icelandic Relief augnkremið er svo eitt það mest rakagefandi sem ég hef prófað. Fæst HÉR. 

gunnhildur

Endilega líkið við Facebook síðu okkar HÉR – Einnig erum við á Snapchat undir nafninu Pigment.is 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is