Snyrtivörumerkið Bobbi Brown hefur oftast verið þekkt fyrir fjölbreytt úrval af förðunar- og húðvörum og fyrir mikil gæði. Útlitið sem Bobbi leggur upp með er ferskt, náttúrulegt og nútímalegt.

Ég vann sjálf hjá merkinu um skeið og hef alltaf sagt að það eigi stóran hluta í mér sem förðunarfræðingi, en enn í dag notast ég mikið við aðferðir sem ég lærði þar ásamt vörunum.

mascover

Nýlega setti Bobbi Brown á markað maskara, sem er dálítið ólíkur öðrum möskurum sem hafa komið út hingað til. Hann er í svörtum, stílhreinum umbúðum með mjög stórum bursta, og er gerður til að lengja, þykkja og bretta augnhárin.

bobbi-brown-eye-opening-mascara-0-33-oz-no-size
Vöruna fékk ég sem sýnishorn – Færslan er ekki kostuð

Við fyrstu ásetningu varð ég ástfangin. Ég þurfti þó að vanda mig aðeins þar sem að ég er vön að hreyfa maskarabursta hjá mér fram og aftur við ásetningu, en með þennan dregur maður hann einfaldlega eftir augnhárunum frá rótinni. Burstinn er það stór að hann þekur alveg hvert og eitt augnhár og 1-2 umferðir eru alveg nóg. Hann gefur ótrúlega lengingu og þykkingu ásamt því að aðskilja augnhárin fullkomlega. Maskarinn stendur svo sannarlega undir „eye opening“ nafninu, en hann opnar augun á einstakan hátt. Mér fannst best að byrja á efri augnhárum og nota svo leifarnar af formúlunni í þau neðri.

Formúlan í maskaranum ertir ekki og hann endist allan daginn á augnhárunum án þess að smitast eða molna. Þó er auðvelt að taka hann af með volgu vatni eða farðahreinsi.

Þessi kemst strax í topp 5 yfir bestu maskarana sem ég hef prófað og ég hlakka til að nota hann meira. Varan kemur í verslanir á morgun, fimmtudaginn 11.febrúar. Bobbi Brown snyrtivörurnar eru seldar í Hagkaup Smáralind og Lyf&Heilsu Kringlunni.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is