Við gerumst allar sekar einhverntíman á ævinni um að gleyma ákveðnum atriðum í sambandi við húðumhirðu, eða ganga í gegnum tímabil í förðun sem við sjáum eftir síðar meir. Ég ákvað að taka saman lista yfir algengustu atriðin að mínu mati með það að leiðarljósi að benda á það sem ég hef séð hjá sjálfri mér og öðrum sem betur mætti stundum fara.

Að þrífa ekki húðina á kvöldin/morgnana
glowing-skin

Húðin er númer eitt, tvö, þrjú og hundrað. Af tvennu illu er þó verra að þrífa ekki farða, augnfarða og óhreinindi af húðinni í lok dags. Húðin getur stíflast, safnað upp óhreinindum og orðið verri viðkomu. Ég tala nú ekki um ef við eigum við húðvandamál að stríða, þá er enn meiri ástæða til þess að hugsa betur um hana. Þar að auki virka krem ekki sem skyldu ef húðin er óhrein. Á kvöldin ætti að þrífa allan farða af húðinni, djúphreinsa hana með viðeigandi vörum og setja bæði serum, krem og augnkrem á hana til þess að hún nái að hreinsa sig og jafna sig yfir nóttina. Á morgnana ætti svo alltaf að hreinsa hana og endurtaka leikinn til þess að undirbúa hana undir amstur dagsins og/eða förðun.

Að teikna augabrúnirnar

Ef þið viljið lesa fyrri skrif mín um augabrúnir get ég bent ykkur hingað. Hver og ein ákveður að sjálfsögðu hvernig hún vill hafa hlutina, en fyrir mér eru náttúrulegar og fallega mótaðar augabrúnir mun fallegri en þær sem við ákveðum að teikna á okkur. Ef við ákveðum að fylla upp í þær, sem margar gera og þar með talið ég sjálf, ættum við að vanda valið á vörunum og hvernig aðferðum við beitum við það.

Ofplokkaðar augabrúnir

Þetta er sem betur fer að líða undir lok. En sumar ofplokka enn augabrúnirnar á sér og við þurfum að muna að þær vaxa ekki svo glatt aftur ef við gerum það. Svo dregur einnig úr hárframleiðslu með aldrinum og því er best að reyna að eiga sem minnst við augabrúnirnar þegar við erum yngri.

maxresdefault
The Makeup Chair / Youtube

Mjög þykkt lag af farða 

Eitt það pínlegasta sem ég sé sem förðunarfræðingur er þegar lag af farða/hyljara/púðri er mjög þykkt. Farði er til þess gerður að jafna áferð húðarinnar, húðlit og hylja misfellur en á ekki að virka sem „gríma.“ Viðmiðið sem mér finnst best er að ef þú ert hrædd við að klóra þér í framan að ótta við að það komi för í farðann, þá er lagið of þykkt.

Ný förðun ofan á gamla förðun 

Þarna komum við aftur að fyrsta atriðinu. Að þrífa farða af á hverju einasta kvöldi. Annars verður undirlagið aldrei eins gott, húðin virkar skítug og augnhárin virka klumpótt.

Óblandaður augnskuggi 

bettiesonabudget.tumblr.com
bettiesonabudget.tumblr.com

Ég skrifaði þessa grein um daginn og hvet þær sem eru óöruggar með augnskuggablöndun að kynna sér hana. Tilgangurinn með augnskugga er betrumbæta það sem fyrir er ásamt því að leika sér með liti, en til þess að förðunin verði falleg og passi augunum þá þurfum við að gæta þess að blanda öll skil vel.

Að sleppa hálsinum 

Þegar við erum að hreinsa andlitið, nota krem, maska og þess háttar verðum við að gæta þess að sleppa ekki hálsinum. Hálsinn eldist og verður fyrir áhrifum alveg eins og andlitið og við megum ekki vanrækja hann.

Þessi listi endurspeglar eingöngu mínar persónulegu skoðanir og ég minni á að hver og ein velur hvernig hún ákveður að gera hlutina :)

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig flugfreyja, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta og hundamamma.

Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is