Ég heiti Jónína Sigrún og er ein af nýju bloggurunum hjá Pigment. Ég elska að ferðast og nýti hvert tækifæri sem ég get til að komast eitthvert burt. Ég er ekki alveg ein af þessum heimakæru, en ef ég hefði ekki kynnst manninum mínum árið 2009 þá væri ég svo sannarlega ekki búsett á Íslandi. En við gerðum díl þegar við byrjuðum saman um að ég fengi að ráða hvert við myndum flytja eftir 10 ár og nú eru komin 8 ár síðan það var svo það styttist óðum í þetta!

Við búum í Hafnarfirði ásamt börnunum okkar, Heiðari (16), Jenný (14) og Kjartani (12). Þið eruð eflaust fljót að átta ykkur á því að ég er mögulega ekki „,mamma“ þeirra, en ég hef litið á þau sem mín eigin frá því að við kynntumst. Nýjustu meðlimir fjölskyldunar eru tvær kisur sem komu til okkar í janúar, en þau heita Khloé (ég vill meina að það sé ekki í höfuðið á Khloé Kardashian en við Jenný erum víst ekki sammála um það) og Púki.

Ég er að læra sálfræði í Háskólanum í Reykjavík og líkar það ótrúlega vel. Þar á undan kláraði ég eitt ár í tannsmíði í Háskóla Íslands, en fann mig ekki alveg þar og sem betur fer þá má alltaf skipta um skoðun og er ég ótrúlega ánægð með að vera komin í sálfræðina. En ég útskrifaðist úr Frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík 2015 svo það er voða gott að vera komin aftur „heim“ í HR. Ég held að ég sé mögulega búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór en það kemur bara í ljós á næstu árum hvort sú hugmynd haldist eða þróist með tímanum.

Annars hlakka ég bara til þess að takast á við þetta nýja verkefni sem bloggari hjá Pigment. Hér mun ég skrifa um um allt á milli himins og jarðar, nema eflaust snyrtivörur þar sem það er engan vegin mín deild. Ég held að ég sé búin að mála mig eins síðan ég var í 8.bekk og keypti minn fyrsta highlither fyrir tveimur árum.. Svo ætli ég sé ekki með aðeins öðruvísi bakgrunn en flestir kollegar mínir hér á Pigment og sem betur fer því þetta væri nú ekki skemmtilegt ef við værum öll eins!

Þið getið fundið mig á Instagram undir @joninasigrun

Jónína Sigrún

Jónína er 28 ára og stundar nám í sálfræði við Háskólan í Reykjavík. Hún elskar að upplifa heiminn og reynir að nýta hver tækifæri sem hún getur til að ferðast. Þar nær hún að sameina áhuga sinn á fólki, mat, tísku, hita og sól. Þegar hún er ekki að láta sig dreyma um sól og sumar er hún önnum kafin við að sinna námi og fjölskyldu, en hún býr í Hafnarfirði ásamt manninum sínum, börnum og kisum. Þú finnur Jónínu á Instagram undir @joninasigrun.

Alpha girls