Ég, Thelma Hilmarsdóttir, játa að hafa fallið í gryfju filtera og duck-face-a. Ég hef viljandi reynt að villa um fyrir þjóðinni með myndum sem eiga vera af mér, eru af mér en tæknilega séð eiginlega ekki ég. Afhverju? Jú, leyfið mér að reyna að útskýra.

Þegar ég tek myndir af sjálfri mér, eða „selfie“, þá seilist ég í vasann minn og næ í rauða spjaldið og hefst handa við að veifa því eins og þaulreyndur dómari á HM. Ég sé hrukkur, bólur, fitu, bauga, misfellingar og ég veit að þessi mynd getur aldrei litið dagsins ljós! Það má ekki nokkur einasti maður á jarðríki sjá hvernig ég lít út í alvörunni. Guð minn góður, hvað myndi fólk segja eða halda um mig ? Nei, þessu verður að bjarga hið snarasta. DELETE. Og byrja upp á nýtt. Sniðugt er að nota snapchat, setja flassið á, velja filter, halda símanum langt fyrir ofan haus, velja allskonar hliðar andlits (hægri, vinstri, framan á) taka fjörtíu og fimm myndir, eyða, prófa aftur, eyða og prófa aftur. Hafa ber í huga að þetta getur tekið langan tíma en útlitið skiptir öllu á þessum tímapunkti. Nú, þegar loksins mynd við hæfi hefur litið dagsins ljós þá þarf að velja filtera. Það passa ekki allir við þannig að það þarf að strjúka snjallsímann á réttan hátt til að finna þann besta. Loksins þegar ásættanlegur filter hefur verið smurður yfir afskræmt andlitið þá er mjög sniðug leið að vista myndina og henda henni inná Instagram því ÞAR krakkar mínir leynast mörg tólin og tækin fyrir HINA FULLKOMNU mynd. Þegar ég er svo orðin sátt og þekki sjálfa mig ekki lengur þá er að henda þessu inn á samfélagsmiðlana og anda léttar. Þá er ekkert eftir nema að bíða eftir að allir sjái þetta glænýja listaverk og hefjist handa við að slá mér gullhamra.

Ég fór í heimsókn til vinkonu minnar um daginn. Hún er yndislega hress, skemmtileg og GULLFALLEG að innan sem og að utan. Seinna um kvöldið fer ég minn vanalega fésbókar rúnt til að athuga hvort ég hafi nokkuð misst af tilkynningum um hvað væri í matinn hjá fólkinu, hvort hinn eða þessi hefði ekki örugglega farið í ræktina og hvort barn einhvers hefði ekki sungið eitthvað lag eða sagt brandara í dag. Á þessu vafri sá ég að þessi sama vinkona mín hafði skellt inn mynd af sér og mér KROSSBRÁ. Ég var hjá henni í dag og hún leit EKKI svona út. Hún var alveg í klessu miðað við myndina sem blasti við mér á skjánum, hún var með þriggja mánaða barnið sitt í fanginu og þau voru bæði með bjútífilterinn á sér. Ég hringdi í hana í offorsi og spurði hvað væri í gangi? Hvort þetta væri alveg normalt? En hún útskýrði þetta allt fyrir mér. Málið er það að drengurinn er með svo miklar hormónabólur og þurrk í hársverði að það var bara alls ekki hægt að setja þessa mynd út í kosmósið. Fyrir utan það að hafa ælt linnulaust yfir daginn og ósofinn. Hún var að gera honum  greiða. Ég andaði léttar. Ég sem hélt að hún væri að fegra sig og vera sjálfhverf. Nei nei nei, það var af og frá að hennar sögn. Barnið leit bara alls ekki nógu vel út og því varð að bjarga. Jáááá, allt í lagi. Hjúkk!

Alveg eins og með afa minn, ég verð að setja filter á hann. Hann er ógeðslega hrukkóttur og gamall í framan. Þannig að þetta er í raun bara af kærleika einum saman þegar maður setur filter á unglömb og gamalmenni. Hjálpsemi er það víst kallað. Af því að nútíminn snýst um að líta ekki út eins og maður gerir í raun og veru. Mér fannst alveg hrikalega fyndið að heyra vin minn lýsa því þegar hann var að taka fólk í atvinnuviðtöl og þurfti svo að leita að þeim. Hann fékk ferilskrár með myndum af viðkomandi en hann var í bölvuðum vandræðum með að finna manneskjuna því hún leit alls ekkert út eins og sú sem horfði á hann brosmild og filteruð af blaðinu. Sem betur fer eigum við nöfn til að skilgreina okkur.

Ég hef mikið pælt í því hvar ég missti viljann til að vera ég sjálf á myndum. Ég held að það hafi gerst eftir skilnað fyrir nokkrum árum og vinkona mín sagði mér að fara á Tinder eins og skot. Þar átti ég að setja inn fullt af myndum og bíða eftir því að einhver folinn myndi rúlla í gegnum þær og ákveða með sér hvort myndirnar væru nógur góðar til að sannreyna hversu frábær ég er. En ekkert gerðist, enginn samþykkti mig og enginn „swipe-aði“ til hægri. Meyjarhaft mitt lokaðist hægt og rólega. Vinkonurnar fóru svo í Sherlock Holmes leiðangur í gegnum Tinder prófælinn minn og sáu strax að ég þyrfti nauðsynlega bráðakennslu í myndasmíðum og þegar því var lokið fékk ég kennslu í að dæma myndirnar af hinu kyninu. Renna í gegnum þær og spá í hárgreiðslu, svipum, brosi, aðstæðum og klæðaburði. Þannig gæti ég auðvitað séð, af nokkrum myndum, hvernig einstaklingur þetta væri og hvort hann væri draumaprinsinn minn. Svona eins og að renna í gegnum matseðil á veitingastað og reyna finna út hvað mig langar að setja ofan í mig. Því verð ég að að viðurkenna að það var smá tilhlökkun að sjá nýjustu bráð vinkonu minnar sem hún hafði verið að hitta. Ég hafði nefnilega bara séð hann af myndum og það var aðdáunarvert að sjá vinkonu mína hamast við reyna að finna góða mynd af honum. Hún skrollaði lengi í gegnum fésbókina hans og sagði bara „ bíddu, æj nei þessi er ekki nógu góð, ohh hann myndast ekki nógu vel, æji hann er sko miklu sætari i raunveruleikanum.“ Þegar hún fór heim opnaði ég hvítvínsflösku og lokaði Tinder aðgangi mínum fyrir fullt og allt.

Þar sem ég sat og speglaði mig í glasinu hugsaði ég: Fokk it … ég er allavega skemmtileg.

Thelma Hilmars

Thelma er móðir tveggja orkumikla drengja sem hún elskar heitar en allt. Hún býr í bílskúr og er í poppkórnum Vocal Project. Hangir endalaust með vinum sínum sem hún dýrkar og borðar kokteilsósu með öllu. Snapchat : thelmafjb
Fylgstu með Pigment.is á Snapchat!

Alpha girls