Mig langar til að segja ykkur frá húsinu mínu. Ég og maðurinn minn festum kaup á eign í fyrsta skipti í febrúar árið 2016 en þá var ég búin að búa í bílskúr foreldra minna í 7 ár og hann með mér þar í þrjú ár og svo bættist dóttir okkar í hópinn í maí 2014. Við sem sagt bjuggum þrjú saman litla fjölskyldan í 28 fermetrum í tvö ár sem var sko alls ekki slæmt þar sem við vorum búin að koma okkur svo vel fyrir. Við kölluðum þetta oft ,,mini“ lúxus einbýlishúsið okkar. Það kom samt að því að við þuftum að stækka við okkur og fórum því að skoða hvað væri í boði. En það var ekkert í boði. Við áttum ekki milljónir á bankabók, samt búin að vera að leggja fyrir en það hefði ekki dugaði fyrir neinu nema kannski 12 fermetra herbergi í Keflavík?

Við sáum ekki fram á að geta stækkað við okkur á næstunni svo við lögðum þessar pælingar á hilluna. Ég aftur á móti er heppin með það að vera örverpi foreldra minna og talaði marg oft um það sem barn að ég ætlaði ALDREI að flytja að heiman. Mamma og pabbi komu til okkar þegar þau voru búin að ganga með þá hugmynd í maganum í dágóðann tíma að kaupa eign öll saman. Ég, Garðar, Fjóla, mamma og pabbi. Kaupa stórt hús sem hægt væri að gera tvær íbúðir úr. Þau voru hrædd um að okkur þætti það ekki góð hugmynd en þau nefninlega gátu eiginlega ekki hugsað sér að vera bara tvö eftir. Okkur Garðari hefði ekki geta litist betur á þetta svo við fórum strax að skoða og við vorum búin að gera kauptilboð mánuði síðar í hús í Seljahverfinu. Húsið er algjör draumur og við eigum það mömmu og pabba að þakka að geta búið hér en þau seldu sína eign sem þau áttu skuldlaust og settu þann pening upp í nýja húsið og við Garðar tókum íbúðarlán fyrir rest, sem var upphæð sem við réðum við og þurftum ekki að eiga útborgun. Í rauninni erum við með lán sem mundi duga til kaupa á 60-70 fermetra blokkaríbúð en búum í 300 fermetra einbýlishúsi sem skiptist u.þ.b. í helming á milli okkar og foreldra minna. Ég mæli eindregið með því fyrir þá sem geta hugsað sér að búa svona nálægt foreldrum eða tengaforeldrum að skoða þennann kost þar sem fermetraverðið getur margborgað sig. Við allavega elskum þetta!

Húsið er byggt í kringum 1980 og við keyptum af fólkinu sem byggði það á sínum tíma og bjó hér í öll þessi ár. Húsið hefur mikla sál og góðann anda. Húsið er eðlilega í þessum   80’s stíl en mér finnst sjarmerandi að halda í hann að vissu leiti. Við erum búin að breyta ýmsu en höfum alls ekki farið í neinar stórar breytingar. Það mun koma að því að við skiptum út eldhúsi, baðherbergi og gólfefnum en það bíður betri tíma. Mamma og pabbi aftur og á móti tóku allt í gegn hjá sér á neðri hæðinni og er hún því eins og ný og ekkert smá flott hjá þeim.

Hér koma nokkrar myndir fyrir:

Og hér eru myndir sem komu í Hús og Híbýli í október, Ljósmyndari: Heiða Helgadóttir:


Og grein sem var birt í Morgunnblaðinu þann 27.11.2016, Ljósmyndari: Árni Sæberg.

Ég á alveg eftir að taka sjálf góðar myndir af heimilinu en geri það á næstunni og deili með ykkur, þangað til vona ég að myndir af myndum sleppi.

 

Ásdís Gunnars
Ásdís Gunnars er förðunarfræðingur, klæðskeri, eiginkona, hundaeigandi og móðir sem hefur mikinn áhuga á öllu fyrir heimilið og að hafa fallegt í kringum sig.
Alpha girls