Færslan er ekki kostuð 

Umræður um krabbamein hafa ávallt staðið mér nærri, en nokkrir af mínum nánustu hafa þurft að kljást við sjúkdóminn. Ég tek því allri góðgerðarstarfsemi fagnandi og langaði ótrúlega að segja ykkur frá uppboði sem Krabbameinsfélagið Sigurvon stendur fyrir út marsmánuð. Mörg falleg verk eru á uppboðinu en svo er líka hægt að kaupa varning eins og handgerð bindisherðartré og fleira.

Hátt í hálfa milljón króna hefur nú þegar safnast á listaverkauppboði Krabbameinsfélagsins Sigurvonar á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum, en því lýkur á miðnætti þann 31. mars. „Uppboðið hefur farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Tinna Hrund Hlynsdóttir, gjaldkeri Sigurvonar og umsjónarmaður uppboðsins og bætir við: „Það er þó enn tími til að skoða verkin og freista þess að eignast fallega, tímalausa list eftir vestfirska listamenn- og konur.“ Níu verk hafa verið gefin á uppboðið og allur ágóði rennur til Sigurvonar. Listamennirnir að baki þeim eru Pétur Guðmundsson, Berglind Halla Elíasdóttir, Marsibil Kristjánsdóttir, Guðrún Sigríður Matthíasdóttir, Ólafía Kristjánsdóttir og Reynir Torfason ásamt ljósmyndaranum Ágústi G. Atlasyni.

Með listaverkauppboðinu er um að ræða algjöra nýjung í fjáröflun hjá félaginu og mikil breidd er í þeim verkum sem boðin eru upp. Uppboðið fer fram á netinu og getur fólk tekið þátt með því að senda tölvupóst á netfangið sigurvon@snerpa.is eða í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook HÉR. Í lok hvers dags eru svo hámarksboð í hvert verk upplýst á Facebooksíðu félagsins. Það getur því enn margt breyst á þessari rúmu viku sem eftir er.

Endilega skoðið það sem er í boði og nælið ykkur í falleg verk með því að styrkja gott málefni í leiðinni.

Gunnhildur Birna
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 29 ára förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig verslunarstjóri í Nola, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta, hundamamma og afleysingakennari í MOOD Make Up School. Snap: gunnhildurb
Alpha girls