Ég veit ekki hvar ég er búin að vera í öll þessi ár en loks hef ég fattað þessa snilldar tannbursta. Þeir eru Svissneskir og mikil gæðavara.


Við fjölskyldan vorum í matarboði um daginn hjá frænda mannsins míns og hans konu sem er reyndar ekki frásögu færandi nema að klukkan var orðin ansi margt. Yngri molinn okkar var orðinn lúinn en foreldrarnir svona aldeilis ekki tilbúnir til að fara heim. Þið þekkið þetta.

Nú voru góð ráð dýr þar sem við létum eins og börn og vildum ekki fara heim en barnið lét eins og foreldrið og reyndi að fá okkur heim. Jú, frúin á heimilinu sem við vorum í heimsókn hjá er tannlæknir og auðvitað átti hún þennan æðislega tannbursta inni í skáp sem barnið fékk að nota og ég fékk líka einn – svaka glöð með mig. Hann var svona líka glaður með tannburstann. Hann burstaði tennur, lagðist í sófann og sofnaði. Við spiluðum langt fram á kvöld og bárum svo afkvæmið heim nýtannburstað og fékk tannburstinn að fljóta með.


Barnið elskar tannburstann sinn og aldrei verið jafn viljugur að bursta. Tannburstinn er alveg eins og fullorðins tannburstinn nema bara aðeins minni. Svo er hægt að kaupa ungbarna líka. Ekki skemmir fyrir hvað tannburstinn er flottur og eru þeir til í allskonar litum. Hárin eru oftar en ekki í öðrum lit en burstinn og er ekkert smá gaman að fara og kaupa sér tannbursta. Við erum öll komin með svona tannbursta núna og erum ekkert smá ánægð. Tannburstarnir eru mjög mjúkir og yndislegir til að bursta með.

Hér eru ungbarna, barna og fullorðins tannburstar.

Ég fell alltaf fyrir allskonar svona smámunum þegar ég er að versla vörur og eru til dæmis hulstrin yfir tannburstana það sem ég féll strax fyrir. Þetta er algjör snilld.

Ég er pínu skipulagsfrík og elska að gera allt einfaldara fyrir molana okkar. Eftir að ég breytti skápnum okkar inná baði þar sem við geymum burstana þá ruglast enginn á tannbursta og allir ganga miklu frekar vel um skápinn. Ég er með bolla frá DesignLetters undir tannburstana hjá mér og manninum mínum sem ég keypti í fyrrasumar í Epal.

Fyrir strákana er ég bara með plast glös úr Ikea sem ég var með fyrir okkur öll áður en ég setti bollana fyrir okkur inní skápinn. Ég merkti svo fyrir yngri molann með nafninu hans en ég átti límmiða sem ég notaði til að merkja dótið hans fyrir leikskólann. Draumurinn er að fá DesignLetters bolla fyrir þá líka einn daginn.

Það er alveg ótrúlegt hvað krakkar ganga vel um og eru dugleg að ganga frá eftir sig þegar þau sjá vel hvar hlutirnar eiga heima. Ég mæli með þessu ef þið eruð í veseni með að láta ganga vel um. Þetta á við allstaðar en ekki bara í tannburstaskápnum.

Hér sjáið þið hvernig þetta er hjá okkur.

Tannburstarnir frá Curapox fást í mjög mörgum apótekum um allt land. Hagkaup, Melabúðinni og fleiri stöðum. Ég kaupi okkar í Apótekinu Setbergi sá þá líka í Apótekinu á Smáratorgi.

Færslan er ekki kostuð en hér er Facebook síðan þeirra og hér er netverslun þeirra. Mig langaði bara svo mikið að þið gætuð orðið jafn hrifin af þessari vöru og við fjölskyldan.

Þórunn Eva er þekktust fyrir bókina Glútenfrítt Líf. Hún er gift, tveggja barna móðir og fagurkeri, en hún flytur einnig inn hinar vinsælu Lulu’s snyrtitöskur.

Alpha girls