Nú ætla ég að tala út frá mínu persónulega lífi, sem er eitthvað sem þið sjáið alls ekki oft hjá mér hér á blogginu. Mér líkar nefnilega vel að eitthvað af lífi mínu sé bara fyrir mig og mína nánustu svo ég er oftast ekki að deila of miklu. En einhvern tíman er allt fyrst! Mig langar, kæru lesendur, að segja ykkur örlítið frá sjálfri mér. Aðallega til að hvetja sjálfa mig í því sem koma skal og líka til að veita ykkur mögulega afþreyingu – og kannski hvatningu í leiðinni.

Það hefur alltaf verið þungt í mér pundið og ég hef átt auðvelt með að bæta á mig vöðvamassa í gegnum tíðina. Ég er ekki bara að segja það, þetta er satt. Ég byrjaði fyrst að fikta við líkamsrækt í 10. bekk. Eftir það var frekar lítið að frétta í þeim málum, en ég hreyfði mig þó, hljóp og hjólaði frekar mikið í sveitinni. Þegar ég var komin í framhaldsskóla sló ég svo til og tók þátt í Ungfrú Suðurland sem leiddi af sér enn meiri líkamsrækt. Í beinu framhaldi af þeirri keppni ákvað ég að keppa í módelfitness (áður en það varð vinsælt, ég er nefnilega svo nýmóðins). Eftir það hélt ég áfram að æfa og hef haldið því reglulega áfram, þó það hafi komið fyrir að ég hafi dottið út. Svo finnst mér líka bragðarefir mjög góðir og hef borðað þá ófáa. Og pizzur. Og hamborgara. Og steikur. Ókei, allur matur. Við getum því gefið okkur það að ég hafi rokkað örlítið upp og niður í formi yfir síðastliðin 10-13 ár.

Í módelfitness árið 2006 - Þarna er ég 19 ára gömul og þrátt fyrir lítinn vöðvamassa náði ég að komast niður í 10% fitu á mjög skömmum tíma með hreyfingu og mataræði.
Í módelfitness árið 2006 – Þarna er ég 19 ára gömul og þrátt fyrir lítinn vöðvamassa náði ég að komast niður í 10% fitu á mjög skömmum tíma með hreyfingu og mataræði.

Undanfarin tvö ár hef ég þó verið viðloðandi snilldar fjarþjálfunarfyrirtæki sem nefnist Alpha Girls. Glöggir lesendur og fylgjendur hafa tekið eftir því að ég hef verið að tala talsvert um þau. Ástæðan fyrir því að ég kann vel við þau er að þau leggja áherslu á skemmtilegar lyftingaraðferðir, þróun æfinga, mataræði sem leiðir ekki til öfga og skynsamlegar leiðir til þess að ná árangri. Þar að auki drepa þau niður leiðinlegar mýtur varðandi mataræði/æfingar sem hafa stjórnað lífi margra í gegnum tíðina. Ég hef yfirleitt verið að lyfta á þessum tveggja ára tíma samkvæmt þessu prógrammi, er orðin mun vöðvaðri og hef öðru hvoru tekið skorpur í mataræðinu. Þá hef ég fundið mestan mun en þó finna bragðarefirnir mig alltaf á endanum. Enda bý ég við hliðina á Vesturbæjarís. Málið er bara að minn helsti galli er hvað ég á viðurstyggilega erfitt með að halda mér við efnið. Ég held að ég treysti einfaldlega of mikið á fyrra form, líkamsminni og sé alltof slök við sjálfa mig vegna þess.

Ég tek fram að ég er á engan hátt óánægð með sjálfa mig. Né lít ég á mig sem feita eða þybbna. Ekki það að það er bara nákvæmlega ekkert að því að vera með eitthvað utan á sér ef maður er sáttur í eigin skinni. Ég er hinsvegar týpa sem lifi fyrir það að skora á sjálfa mig og hef oftast verið í góðu eða mjög góðu líkamlegu formi, svo að ég ber sjálfa mig að sjálfsögðu saman við það. Mér líður best þegar fituhlutfallið á líkamanum á mér er nokkuð hóflegt, ég hreyfi mig nánast daglega og mataræðið er að mestu leyti „hreint,“ eða um 80%. Þá líður mér best bæði andlega og líkamlega og er ánægðust með sjálfa mig.

Maí-Júní 2014. Þarna var ég mjög ánægð með sjálfa mig, en er þó ekki eins vöðvuð og núna. Árangurinn náðist á milli fyrri og seinni tveggja myndanna á þremur vikum með lyftingum 4-5x í viku og frekar hreinu mataræði.
Maí-Júní 2014. Þarna var ég mjög ánægð með sjálfa mig, en er þó ekki eins vöðvuð og núna. Árangurinn náðist á milli fyrri og seinni tveggja myndanna á þremur vikum með lyftingum 4-5x í viku og frekar hreinu mataræði.

 

Eins og fyrirsögnin segir því til um, er kroppurinn kominn í hann krappann. Ég fer alveg að koma mér að efninu, ég lofa. Ég er orðin þyngri en ég hef nokkurn tíman verið. Þrátt fyrir að ég hafi áður verið með meiri líkamsfitu (en ekki eins þung), ég sé orðin mun massaðri og sterkari og hægt sé að klína að minnsta kosti 20% af þessum aukakílóum á jólin og tíðahringinn (hæ hormónar), er ástandið engan veginn nógu gott. Ég hef því ákveðið að taka á honum stóra mínum og skrá mig í þriggja mánaða Fat Loss prógramm hjá Alpha Girls. Þar komið þið inn í.

Ég mun leyfa ykkur að fylgjast með ferlinu allt frá byrjun til enda með pistlum á tveggja vikna fresti. Ég mun EKKI segja ykkur strax hvað ég er mörg kíló samt. Kannski seinna.

En á þessum tíma ætla ég að skrá niður fyrir ykkur:

  • Hvað ég er að missa í kílógrömmum. Talan segir alls ekki allt en það er gott að hafa hana sem viðmið.
  • Hvernig mér líður í prógramminu, bæði hvað varðar æfingar og mataræði.
  • Hvort fötin séu farin að passa betur.
  • Hvernig mér gengur að halda mér við efnið.

Lýsingin á Fat Loss prógramminu er eftirfarandi (texti eftir Einar Kristjánsson, tekinn af Alpha Girls grúppunni):

Það sem þú færð í AG – fitutap eru æfingakerfi, aðhald og aðstoð með mataræði.
Það eru nokkrar góðar ástæður fyrir því að þetta fyrirkomulag auðveldar þér að ná árangri og missa fitu.
– Þú ert að fókusa á eitt markmið.
– Þú ert hluti af litlum og þéttum hóp, þar sem allar eru með sama markmið og í nákvæmlega sömu sporum.
– Þetta er 12 vikna lota. þetta er stutt tímabil sem þú veist að skilar þér árangri.
– Þú hefur aðgang að þjálfara hvenar sem er.
Afhverju 12 vikur?
Það eru góðar ástæður fyrir því.
– Ef þú borðar lítið af hitaeiningum í mikið lengri tíma en 12 vikur fer líkaminn að aðlagast og fer að eyða minna af orku sem býr til efnaskipta vandamál og gerir fituapið mun erfiðara.
– Fólk á erfitt með að halda sig við efnið í lengri tíma og fer að missa einbeitingu eftir 8-12 vikur.
– Við viljum missa mikið af fitu á 12 vikum og búa svo til nýtt „set point“. Eftir að þú missir fitu þarft þú að viðhalda fitutapinu í ákveðin tíma svo að líkaminn fari ekki aftur í sömu þyngd. Líkaminn vill vera í sínu homeostatic ástandi (sem þýðir að líkaminn vill líklega halda sér eins og hann er núna, ef þú léttist um 5kg er líklegt að líkaminn vilji bæta þeim aftur á sig. Þess vegna þurfum við að skipuleggja okkur þannig að við tökum fitutaps tímabil og svo viðhalds tímabil.)
Hvernig virkar þetta?
Í grunninn gengur þetta fyrst og fremst út á að búa til neikvætt hitaeininga jafnvægi.
Það eru ýmsar leiðir sem við getum notað til að gera það, meðal annars að telja macros, eða telja bara hitaeininga og protein eða með því að borða eftir einföldu matarplani.
En svo erum við erum með nokkur „trix“ upp í erminni sem við getum notað til þess að auka fitutap og viðhalda fitutapinu án þess líkaminn aðlagist því að borða of lítið og fari að eyða minna.
Við notum regluleg re-feed og/eða diet breaks sem við skipuleggjum til þess að ná sem mestum árangri.
Þú getur borðað hvað sem er, þarft ekki að neita þér um neitt, en líklega verður 80% af mataræðinu „hreint“ mataræði, eða mikið af grænmeti, ávöxtum, heilhveti vörum, hollum fitum og proteini, En inná milli er sjálfsagt mál að njóta þess að fara út að borða og fá sér pizzu og hvítvín eða súkkulaði á kvöldin o.s.frv.


Mér líst nokkuð vel á þetta. Sérstaklega þegar ég sá orðið „súkkulaði“ (djók… samt ekki djók).

Ég er örlítið byrjuð að undirbúa mig, en prógrammið sjálft hefst ekki af fullum krafti fyrr en 9.janúar næstkomandi. Það verður opnað fyrir skráningar á morgun 29. desember inni á þessari síðu, en þið getið einnig smellt HÉR til að skoða betur Alpha Gym síðuna. Facebook síðan hans Einars einkaþjálfara er svo HÉR.

Ég hlakka til að leggja í þetta ferðalag með ykkur!

gunnhildur

Endilega líkið við Facebook síðu okkar HÉR – Einnig erum við á Snapchat undir nafninu Pigment.is 

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig verslunarstjóri í Nola, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta, hundamamma og gestakennari í MOOD Make Up School. Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is

Alpha girls