Ég ætla aðeins að fjalla um þau krem sem ég nota dagsdaglega yfir vetrartímann.
Ég er með blandaða húð en ég verð sem sagt olíukennd á enninu og í kringum nefið ef ég nota of feit krem eða farða. Ég verð samt líka þurr og get fengið þurrkubletti ef ég passa ekki nógu vel upp á rakann.
Það getur verið snúið að halda húðinni í jafnvægi og því ætla ég að deila með ykkur það sem virkar fyrir mig.

Einu sinni hélt ég að þar sem ég byrjaði að glansa eftir nokkra tíma þegar ég var búin að mála mig að ég væri með mjög feita húð og þyrfti þar af leiðandi að nota sterka tónera sem sjúga í sig umfram húðfitu, mattandi krem og maska, farða fyrir feita húð og það mátti alls ekki vera olía í neinu.
Ég var sem sagt glansandi á enninu og í kringum nefið en samt með þurrkubletti á sama tíma!

Svo las ég að með því að næra húðina ekki nógu vel og gefa henni ekki nægilegan raka fer hún að reyna framleiða hann sjálf sem getur valdið því að maður verður glansandi með deginum. Þá ákvað ég að prófa að byrja að nota feitara krem fyrir svefninn en halda öllu öðru óbreyttu og sá þvílíkan mun eftir nokkra daga.

Hér er það sem ég nota núna til að halda húðinni minni í jafnvægi.

Body Shop Seaweed dagkrem
Þetta krem nota ég undir farðann á morgnanna.
Það er mjög létt og gelkennt. Það er rakagefandi þó það sé fyrir venjulega/feita húð og kemur í veg fyrir að húðin byrji að glansa seinna um daginn.
-Fæst í Body Shop

Decubal andlitskrem
Ég fann þetta krem í Lyfju fyrir nokkrum mánuðum.
Ég þurfti bara eitthvað frekar feitt krem þar sem ég var orðin þurr og byrjuð að flagna á nefinu og greip þetta með mér þar sem það kostaði hvort sem er svo lítið að ég gæti bara hent því ef það væri ekki að virka fyrir mig. EN ég er búin að nota þetta krem núna í allan vetur áður en ég fer að sofa og elska það!
Það fer fljótt inn í húðina þannig maður finnur ekkert fyrir að maður hafi verið að bera á sig feitt krem og er akkurat þessi raki sem húðin mín þurfti sem hún var ekki að fá áður.
-Fæst í flestum apótekum

EGF eyeserum
 Þetta augnserum er það eina sem ég get borið á augnsvæðið mitt án þess að fá sviða og verða öll rauð og bólgin. Umbúðirnar eru líka svo hentugar. Ein pumpa er akkurat passleg fyrir bæði augun og kúlan framan á er kælandi til að draga úr þrota.
-Fæst um borð í Icelandair, fríhöfninni og Hagkaup.

Vitamin-E maski
 Þennan rakamaska ber maður á sig fyrir svefninn og tekur af um morguninn.
Ég nota hann 2-3 í viku allan ársins hring þar sem ég finn stundum fyrir smá þurrki líka á sumrin þar sem ég er flugfreyja og loftið í vélunum oft frekar þurrt. Án þess að vera að ýkja þá vaknar maður eins og barnarass í andlitinu!
-Fæst í Bodyshop

 

Vera Rúnars

Vera Rúnars er 23 ára flugfreyja hjá Icelandair, förðunarfræðingur og á eins árs stelpu sem heitir Indía Nótt. Hún er mikil áhugamanneskja um hönnun, förðun og fallega hluti.

Alpha girls