Ég hef lesið svo margar greinar í tímaritum í gegnum tíðina sem innihalda alls kyns förðunarráð. Eitt af þeim ráðum sem mér hefur ævinlega mislíkað er að leyfa húðinni að anda á sumrin og mergsjúga í sig D-vítamínið. En hvað með okkur dömurnar sem langar að farða okkur allan ársins hring? Það eru til svo margar förðunarvörur sem er skemmtilegra að nota á sumrin en á veturna og mig langar alls ekki að missa af því!

En svo ég sé nú allt annað en samkvæm sjálfri mér þá fór ég í sumarfrí í tvær vikur í júlí. Ég held ég hafi einu sinni farðað mig á þessum fjórtán dögum. Ekki var um meðvitaða ákvörðun að ræða heldur æxlaðist það bara þannig. En mér til mikils ama þá tók ég eftir því að húðin á mér varð betri og heilbrigðari. Hún hafði þá gott af því blessunin að fá súrefni og bætiefni sólarinnar. Ég þarf mögulega aðeins að endurskoða afstöðu mína í þessu máli. Ég legg til að málamiðlunin verði sú að á þessum fáu sólardögum sem láta sjá sig þá leyfi ég húðinni að njóta sín. En dragi ský fyrir sólu þá kem ég fílefld til baka með tvöfalt lag af meiki niður á bringu. Ég læt ekki vaða yfir mig á skítugum skónum.

Bleikar varir

Ég fékk tvær nýjar vörur gefins til að prófa í sumar sem ég er spennt að segja frá. Fyrri varan er sumarlegur varalitur frá Lancome.

Varaliturinn minnir á gloss. Hann er mjúkur, kremaður og glansar aðeins. Hann er ekki mjög pigmentaður svo hann hentar vel að sumri til þegar mann langar að vera með aðeins léttari liti á vörunum. Hann er mjög auðveldur í ásetningu og ég gæti vel hugsað mér að hafa hann á mér í veskinu þar sem hann krefst ekki mikillar vandvirkni.

Varaliturinn fæst meðal annars í Hagkaup og heitir L’ABSOLU ROUGE í litnum 317 POURQUOI PAS? Sheer.

Fallegur og frískandi bleikur varalitur

Frábær hyljari

Seinni varan sem mig langar að segja frá er frá BOBBI BROWN og nefnist Face Touch Up Stick. Þessi vara minnir mig á gömlu góðu bólufelarana en er um það bil í hundrað sinnum betri gæðum. Hann er miðlungs hyljandi, kremaður og auðveldur í ásetningu. Ég sé fyrir mér að nota hann í kringum varirnar til þess að laga mistök og í kringum augabrúnir til þess að skerpa á þeim. Hann er líka algjör bjargvættur í baráttunni við bólur. Ég verð framvegis með þennan litla gaur á mér í veskinu ef Bóla Bóludóttir ætlar að fara að láta á sér kræla á kaffihúsi til dæmis.

Bobbi Brown fæst meðal annars í Hagkaup og í Lyf&Heilsu Kringlunni
Ég er með aðeins dekkri húð á sumrin en á veturna og notaði hyljarann í litnum SAND sem mér fannst tóna vel við meikið.

Falleg förðun í sólinni

Sólarlagið var svo fallegt þegar ég var að taka myndir fyrir þessa færslu svo ég rauk út og tók nokkrar myndir í fjörunni. Förðunin kemur allt öðruvísi út í kvöldsólinni.

Anna Ýr

Anna Ýr Gísladóttir er förðunarfræðingur, stjúpmamma, verðandi móðir (ófrísk af fyrsta barni), heklari, föndrari, fagurkeri, skrifar smásögur ásamt mörgu öðru! Þú finnur Önnu á Instagram undir @annayrmakeupartist

Alpha girls