Ég held að ég hafi fundið hina fullkomnu leið fyrir konur að læra að mála sig! Enda hef ég ansi oft fengið spurningar þess efnis um hvernig sé best að læra að mála sig og hvernig maður verði góður í því. Sérstaklega án þess að þurfa að borga hálfa milljón fyrir nám ef maður ætlar ekki að nýta sér námið sem einhverskonar tekjulind (nema að maður sé einfaldlega mikið fyrir að eiga sér dýr áhugamál).

Það er þreytandi að vera ekki góður í einhverju sem maður vildi að maður væri góður í, ekki satt? Það er enn meira þreytandi að sitja og horfa á aðra vera góðir í því og skilja einfaldlega ekkert hvernig þeir fóru að því.

En við skulum ekki lengja þetta frekar. Hver er þessi leið og hvernig nærðu að mála þig eins og þig langar án þess að (afsakið orðbragðið) fokka því upp? Hér er listi af skrefum til að taka, í réttri röð:

  1. Æfng
  2. Meiri æfing
  3. Skóli/kvöldnámskeið með vinkonum/Youtube (valfrjálst)
  4. Smá dass af æfingu
  5. Æfing eftir vinnu
  6. Sitja fyrir framan spegilinn og æfa sig
  7. Fá vinkonur í heimsókn og æfa sig (ef þú vilt læra að mála aðra)
  8. Grípa öll tækifæri sem gefast og æfa sig
  9. Settu þér markmið og tímaramma til að ná þeim. Æfðu þig svo.

MÍN SAGA

Ég varð ekki allt í einu góð í því að mála aðra og sjálfa mig. Og já, ég tel mig vera nokkuð góða í því sem ég geri í dag, enda borgar fólk mér fyrir það svo að það er eins gott. Eftir 10 ár verð ég enn betri. Ég byrjaði að sýna förðunardóti móður minnar áhuga þegar ég var í leikskóla. Ég fór að krota á vinkonur mínar og frænkur þegar ég var 12 ára. Þegar ég var 14 ára fór ég að apa eftir fermingarförðuninni minni (sem frænka mín gerði á mig) á litlu frænku mína. Á sama tíma málaði ég bestu vinkonu mína með fagurbláum augnskugga og hún endaði á að líta út eins og draugur.

Þetta var allt saman hræðilegt, en ég reyndi og sá að ég hafði einhverja hæfileika. Ég varð örlítið skárri með hverju árinu og mikilli æfingu. Í framhaldsskóla farðaði ég vinkonur mínar fyrir klínk. Í kringum tvítugt farðaði ég vinkonur þeirra fyrir klínk. Ég sótti svo um í förðunarnám hjá skóla sem var farinn á hausinn og fékk aldrei svar. Þegar ég var 24 ára lét ég gamlan draum rætast og fór í förðunarnám. Ég tók vinkonur, mágkonur og systur heim á kvöldin eftir skóla og vinnu og málaði þær. Ég tók að mér verkefni og vann þar til að mér varð illt í höndunum, öxlunum, bakinu og fótunum. Ég æfði mig. Svona gekk þetta í öllum verkefnum og með hverju andlitinu.

ÞARF ÉG FLOTTUSTU VÖRURNAR?

Fyrir það fyrsta þá er ekkert til sem heitir „flottustu vörurnar.“ Það er persónubundið hvað hverjum og einum finnst. En nei. Það er hægt að prófa sig áfram með hvað sem er og það sem þér finnst þægilegt að nota.

EKKI LÁTA MISTÖK SLÁ ÞIG ÚT AF LAGINU

Þó þú klúðrir eyeliner fimm sinnum á einu kvöldi eða náir ekki að gera fullkomlega jafnar varir með rauða varalitnum? Kannski líturðu út eins og klessumálverk eftir fyrsta smokey lúkkið og mögulega lítur húðin út fyrir að vera skítug eftir að þú skyggir þig í framan. Það er ekki tilefni til þess að henda frá þér förðunarburstunum og öskra reiðilega í spegilinn: „ÉG VERÐ ÞÁ KANNSKI BARA ALDREI GÓÐ Í AÐ MÁLA MIG OG GET GLEYMT ÞESSU!“ Við gerum öll mistök í öllu sem við gerum og þau eru það sem gera okkur mannleg. Ég geri enn mistök og geri einstaka sinnum ljótan eyeliner.

Hæfileikar hjálpa vissulega til svo að fólk nái langt en hvaða manneskja sem er sem er við heilsu ætti að geta lært að mála sjálfa sig eins og henni finnst fallegt – EF hún vill og eyðir smá púðri í æfingu.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig verslunarstjóri í Nola, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta, hundamamma og gestakennari í MOOD Make Up School. Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is

Alpha girls