Að vera vegan er klárlega eitthvað sem margir eru að snúa sér til akkúrat núna og ef það er eitthvað sem ég er farin að rannsaka í þaula undanfarna mánuði og ár, þá eru það vegan snyrtivörur. Ég nota enn fullt af vörum sem eru ekki vegan, en mér gaman að prófa mig áfram og kanna einnig málin fyrir vinkonur mínar sem kjósa að lifa vegan lífstíl. Fyrir þá sem ekki vita að þá eru vegan snyrtivörur þær sem innihalda engar dýraafurðir (ekki heldur býflugnavax eða hunang) og eru ekki prófaðar á dýrum. Að vera vegan og lífrænt þarf ekki endilega að haldast í hendur.

Ég lagðist í smá vinnu um nákvæmlega HVAÐ af því sem ég væri að nota væri vegan og hvað ekki. Fyrir þá sem eru vegan og vantar hugmyndir af hefðbundnum snyrtivörum sem passa inn í lífstílinn, þá ætti þessi listi að gagnast vel. Athugið þó að sumar af vörunum eru þó ekki endilega hluti af 100% vegan merkjum. Mörg merki innihalda meirihluta af vegan vörum en örfáar aðrar vörur innan merkjanna gætu innihaldið býflugnavax eða annað slíkt. Ég mæli því með að nota vin okkar Google í leitinni ef þið eruð að velta fyrir ykkur fleiri vörum frá þessum merkjum.

Stjörnumerktar vörur voru fengnar að gjöf
1. Skyn ICELAND Fresh Start Mask HÉR 2. Anastasia Beverly Hills Contor Kit HÉR 3. Karuna Antioxidant Face Mask HÉR 4. NABLA augnskuggar HÉR 5. Maria Nila True Soft Argan Oil* á helstu hárgreiðslustofum 6. Maria Nila Silver Shampoo & Contitioner* á helstu hárgreiðslustofum 7. Herbivore Botanicals Coco Rose Coconut Oil Body Polish HÉR 8. Skyn ICELAND Arctic Face Oil HÉR 9. Urban Decay Naked Skin Concealer fæst í Hagkaup Smáralind10. e.l.f. Cosmetics Illuminating Palette HÉR 11. ILIA Sheer Vivid Tinted Moisturiser HÉR 12. Davines Vegetarian Miracle Conditioner* á helstu hárgreiðslustofum 13. Eco By Sonya Invisible Tan HÉR 14. Skyn ICELAND Brightening Eye Serum* & Icelandic Relief Eye Cream HÉR

Byrjum á byrjuninni: Alveg ótrúlega margar vörur frá Skyn ICELAND eru vegan og þar á meðal þessi dasamlegi maski. Hann er tvískiptur, en seinna skrefið virkjar það fyrra og hann bæði hreinsar öll óhreinindi upp úr húðholunum og gefur húðinni súrefni og raka.

Anastasia Beverly Hills skyggingarpallettan er ein af mest seldu vörunum hjá henni og af góðri ástæðu: Endalaust góðir skyggingarlitir, hægt að nota ljósari litina sem púður og gullfallegur ljós litur sem gefur ljóma.

Maskarnir frá Karuna innihalda 30 millilítra af serumi og eru grímur sem maður skellir á sig. Húðin verður endurnærð og það er alveg óþarfi að þrífa hana eftir notkun, heldur nuddar maður bara afganginum af seruminu inn í húðina.

Ég hélt ég myndi aldrei elska hárolíu jafn mikið og eina sem ég notaði, en þessi frá Maria Nila er núna komin í daglegu rútínuna mína. Hún inniheldur geggjaða lykt, raka og er ótrúlega létt.

Talandi um Maria Nila, þá er ég búin að vera að nota þetta sjampó og hárnæringu núna daglega í einhvern tíma. Æðislegt til að halda gulum tónum úr hárinu ásamt því að hreinsa vel og næra.

Herbivore er eitt af uppáhaldsmerkjunum mínum en það er bæði vegan og handgert í Bandaríkjunum. Þessi líkamsskrúbbur er fastagestur í líkamsrútínunni minni. Húðin verður silkimjúk og vel ilmandi, en skrúbburinn inniheldur kókosolíu, sykur og rósavatn meðal annars.

Arctic Face Oil frá Skyn ICELAND er æðisleg þegar maður er að berjast við þurrk í húðinni. Hún nærir og byggir upp raka, en hún er 99% hrein Camelina olía. Fyrir þá sem ekki vita þá er Camelina olíujurt sem vex í köldu loftslagi í Evrópu og Asíu.

Naked Skin hyljarinn frá Urban Decay þekur alveg ótrúlega vel og er einn af þeim betri sem ég hef prófað. Hann sest ekki í línur og þornar ekki óþægilega mikið, en helst þó mattur yfir daginn.

Ég uppgötvaði nýlega e.l.f. merkið sem kom mér ótrúlega að óvart. Það er bæði mjög ódýrt, vandað og þessi „highlighter“ palletta er alveg ótrúlega falleg!

ILIA er bandarískt merki sem er meðal annars selt í Sephora. Eitt af því sem mér finnst best þar er litaða dagkremið sem gefur raka, jafnar húðlit og gefur fallegan ljóma.

Ég elska margar vörur frá Davines en þó helst þessa hárnæringu sem gefur ljósa hárinu mínu ótrúlega mikinn raka, næringu og glans. Það er alltaf silkimjúkt eftir þessa meðferð!

Eco By Sonya brúnkuvörurnar eru alltaf frábærar. Invisible tan berst á hreina húð (helst skrúbbaða fyrst) og brúnkan sjálf kemur fram á nokkrum klukkutímum. Það er lítil sem engin brúnkukremslykt og það koma ekki rendur í litinn, sem er mikill kostur.

Augnserumið og augnkremið frá Skyn ICELAND eru tvennan sem ég notast mest við undir augun en ég ber þau á til skiptis. Serumið er nýtt frá merkinu og algjör bauga- og þrotabani, á meðan augnkremið gegnir sama hlutverki og gefur góðan raka.

Ég vona að vegan vinir mínir og vinir þeirra hafi fundið eitthvað á þessum lista við hæfi. Ég mun halda áfram í þessu litla rannsóknarverkefni um ókominn tíma og læt ykkur vita eftir því sem ég finn meira.

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig verslunarstjóri í Nola, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta, hundamamma og gestakennari í MOOD Make Up School. Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is

Alpha girls