Ég elska, elska, elska farðanirnar sem leik- og söngkonur báru á Óskarnum í nótt! Það sem kom mér mest að óvart var hvað sumar farðanirnar voru mínimalískar, en þeir sem þekkja mig og mína vinnu vita að ég er mjög mikill aðdáandi slíkra farðana. Þær sem fóru yfir í þyngri lúkk skörtuðu oftar en ekki frekar dökkri „smokey“ förðun, rauðleitum augnskuggum, „cat eye“ förðunum og skemmtilegum litum í bland við jarðtóna, til dæmis við neðri augnhár.

Það sem mér finnst lang skemmtilegast við þessar farðanir er það að yfirleitt er lögð áhersla á ljómandi húð sem er vel undirbúin og skín í gegn um farðann, náttúrulegar augabrúnir og aðeins eitt atriði; augu eða varir eru í aðalhlutverki.

Hér koma nokkrar af mínum uppáhalds:

Emma Stone skartaði gullfallegum dökkrauðum varalit ásamt augnskyggingu í brúnum- og bronslitum sem tónaði ótrúlega vel við, en húðin var líka óaðfinnanleg. Mér fannst skemmtilegast hvað augnskyggingin myndar mikið „cat eye“ í ytri augnkrókunum. 

Þessi dökka smokey förðun hjá Demi Lovato er tryllt! Förðunarfræðingurinn hennar notaðist við gráa- og silfurtóna og hlutlausan varalit/gloss við sem toppaði útlitið.

Scarlett Johanson er alltaf jafn glæsileg, en hennar förðun lagði áherslu fyrst og fremst á húðina með náttúrulegri augnförðun sem lýstist inn í augnkrókana og opnaði augun extra mikið.

Taraji P. Henson fannst mér skarta ótrúlega áhugaverðri augnförðun, en í neðri augnhára- og vatnslínu var settur blár blýantur sem poppaði upp brúnu augun hennar og gaf útlitinu skemmtilegt yfirbragð.

Ég er ótrúlega skotin í þessum varalit sem Chrissy Teigen var með sem var brúntóna með smá sanseringu. Bronsuð augnskyggingin tónaði fullkomlega við ásamt sólkysstri húð.

Þessi augnförðun er ein af mínum allra uppáhalds, en hún var áberandi með mikilli sanseringu og tónaði vel við hárið sem var tekið aftur. Allison Williams negldi þetta algjörlega.

Ein af mínum uppáhalds leikkonum, Charlize Theron mætti með ótrúlega eletgant greiðslu ásamt mínimalískri förðun sem lagði mesta áherslu á sólkyssta og fallega húð.

Jennifer Aniston var ótrúlega hófleg í förðunarvali, en hún er lang oftast með meiri förðun á augnlokunum en sleppir því að setja of mikið fyrir neðan augun. Húðin var óaðfinnanleg og hún skartaði náttúrulegum og fallegum varalit við.

Falleg húð, „highlighter“ og cat-eye förðun með arabísku yfirbragði var ótrúlega flott hjá Adriana Lima sem ljómaði hreinlega, en hárið var tekið aftur til að leyfa andlitinu að njóta sín.

Dökk smokey förðun, gullfalleg húð og bronsaðar varir komu ótrúlega vel út hjá Viola Davis sem geislaði á rauða dreglinum.

Naomie Harris var með spegilslétt hár og berjatóna augnförðun, en förðunarfræðingurinn Mario Dedivanovic dró ljósbrún augu hennar fram á ótrúlegan hátt.

Var ég búin að minnast á að ég elska rautt hár? Fagurrauði varaliturinn sem Emma Roberts skartaði passaði fullkomlega við rauða hárið hennar og gylltu augnförðunina, en ég persónulega get ekki hætt að horfa á hana!

Ljós augnskygging, mjólkurhvít húð, svartur eyeliner og fölbleikar varir er fullkomin blanda fyrir Felicity Jones sem minnti á guðdómlega leikkonu á sjötta áratugnum.

Mig dreymir um að farða Rosie Huntington-Whitely en það sem mér fannst áhugaverðast við hennar förðun voru augabrúnirnar sem voru fallega greiddar upp á við. Svartur, mínimalískur eyeliner, ljómandi húð og náttúrulegar varir komu ótrúlega vel út hjá henni.

Þessi augu! Þetta er förðun sem mig langar mikið að leika eftir, en ílangt smokey með silfruðum tóni í innri augnkrókunum var guðdómlegt á Emily Ratajkowski. Brúntóna varaliturinn fór virkilega vel við.

Hver var ykkar uppáhalds förðun?

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig verslunarstjóri í Nola, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta, hundamamma og gestakennari í MOOD Make Up School. Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is

Alpha girls