Stjörnumerktar vörur í færslunni voru fengnar að gjöf – aðrar keypti greinahöfundur sjálf

Það vita nú orðið allir um hættur ljósabekkjanotkunar. Fyrir um tveimur og hálfu ári ákvað ég að hlífa húðinni á mér alveg og hætta öllu ljósabekkjarbrölti. Ég fór mikið í ljós á nokkrum tímabilum sem var farið að sýna sig á húðinni á mér – enda húðin þurrari, líflausari og allar línur sáust mun betur. Það var meðvituð ákvörðun hjá mér að hætta að eyðileggja markvisst á mér húðina og stefna sjálfri mér í stórhættu, en í senn mikið áfall því ég hætti allt í einu að vera alltaf brún. Ég tók góðan tíma í að syrgja brúnkuna og minna sjálfa mig á hvers vegna ég hafði hætt. Í hvert skipti sem mig langar að freistast aftur og fara í ljós gríp ég í brúnkufroðuna góðu og ber á mig, en ég á orðið safn af allskyns brúnkuvörum sem allur leikhópur Jersey Shore yrðu stolt af.

Það er ákveðin tækni að ná góðum lit af brúnkukremum, froðum og olíum. Maður þarf helst að vera búinn að skrúbba húðina í sturtu með grófum hanska eða kornaskrúbb, bera á sig gott krem (ég notast mikið við olíur í augnablikinu) og að lokum bera á sig froðuna/kremið með þar til gerðum hanska.

Það er líka snúið að finna hina fullkomnu brúnkuvöru fyrir sig. Ég ákvað því að hafa færsluna með öðruvísi yfirbragði í þetta skiptið og gera samanburð fyrir ykkur af brúnkufroðum sem ég nota þessa stundina; einni sem ég hef notað í mörg ár og öðrum sem ég er nýbúin að prófa. Hér fyrir neðan fer ég yfir kosti og galla brúnkufroðanna sem ég hef verið að nota, ásamt því að gefa þeim einkunn.

brunkufrodur

 MINETAN – DARK ASH 

Ég keypti mér nýlega þessa froðu eftir að ég sá færslu frá Veru Rúnars hér á Pigment um Minetan brúnkufroðurnar. Einnig sá ég vinkonu mína skarta þessum lit og þannig varð hann fyrir valinu. Hann er með frekar gráum undirtón svo hann verður hvorki gulur né appelsínugulur á húðinni – sem er kærkomin breyting frá brúnkukremum sem maður hefur stundum prófað.

Kostir: Ótrúlega margir litatónar. Hægt að fara í gegnum „próf“ á Minetan síðunni til þess að velja sér lit við hæfi út frá húðtóni og lit sem maður vill ná fram. Nánast engin brúnkukremslykt og smitast lítið í lök (af minni reynslu). Góð innihaldsefni, náttúrulegt parabenfrítt og „cruelty free“ (vottað). Virkilega flottur og vel dökkur litur sem entist í nokkra daga og dofnaði mjög jafnt.

Gallar: Það fór dálítil froðan í gegnum hanskann sem ég keypti með (Minetan hanski). Einnig fannst mér frekar erfitt að dreifa úr litnum og fannst hann örlítið „klessulegur“ á húðinni þar til ég fór í eldsnögga sturtu klukkutíma eftir ásetningu, sem er mælt með. Eftir sturtuna var liturinn mjög fínn. Það þarf líka örlítið að passa magnið, en liturinn dökknar yfir 24 tíma frá ásetningu.

Fæst HÉR

ST. TROPEZ CLASSIC BRONZING MOUSSE

Ég veit að vísu nákvæmlega hverju við er að búast af St. Tropez, en þessar vörur hef ég notað í mörg ár með góðum árangri. Ég hef einnig alltaf endað aftur í þeim eftir að hafa prófað eitthvað annað, þar sem að ég kann ótrúlega vel við þær á mest allan hátt.

Kostir: Hanskinn er mjög góður og auðvelt er að dreifa úr litnum. Liturinn dökknar jafnt og þétt yfir nokkra tíma og froðan er dökk við ásetningu svo maður veit hvar hann fer á húðina. Ég er ótrúlega snögg að bera þessa brúnku á mig og þrátt fyrir að það sé alltaf mælt með því að kornaskrúbba húðina og bera á hana, finnst mér það vera minna stress þegar um er að ræða St. Tropez. Lyktin er einnig mild en þó er froðan ekki lyktarlaus. Hægt er að velja um tvo tóna, einn brúsi endist lengi og brúnkan sjálf helst vel á og fer jafnt af húðinni. Brúnkan er 100% parabenfrí og inniheldur náttúruleg innihaldsefni.

Gallar: Eini stóri gallinn við þessa er að hún smitast talsvert í lakið – þar af leiðandi er ég farin að passa mig á því að vera ekki með ljós lök eða rúmföt á rúminu þegar ég nota hana. Einnig þarf maður að passa að hafa tappann á froðunni þegar maður hristir hana fyrir notkun – treystið mér!

 

Fæst í helstu apótekum og í verslunum Hagkaups 

NOUVATAN SELF-TANNING MOUSSE *

Þessa fékk ég að gjöf á dögunum og var mjög spennt að prófa, en ég hafði heyrt góða hluti frá samstarfskonu minni.  Froðan kemur í sætum, skreyttum umbúðum og er Daisymakeup að selja hana.

Kostir: Nokkuð auðvelt að bera froðuna á en gerðist þó ekki átakalaust. Virkilega góð lykt af henni sem kom mér skemmtilega að óvart, en hún minnir aðeins á ávexti. Það var ótrúlega góð tilbreyting að finna nákvæmlega enga brúnkukremslykt. Liturinn var fljótur að þorna og var jafn og fallegur á húðinni. Smitaðist mjög lítið í lakið. Vítamínbætt og inniheldur engin paraben né skaðleg efni.

Gallar: Eins og áður sagði, þá tók dálítið langan tíma að nudda froðunni inn í húðina svo að liturinn yrði jafn. Entist ágætlega en fannst hann þó ekki endast jafn vel og hinir. Það er samt kannski ekki alveg marktækt þar sem að ég fór í langar sturtur.

Fæst HÉR

Vonandi hjálpar þessi grein einhverjum með valið á brúnkufroðum – gleðilega heilbrigða brúnku!

xx

GUNNHILDUR BIRNA

Gunnhildur Birna

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er 31 árs förðunarmeistari, ásamt því að vera stofnandi og ritstjóri Pigment.is. Hún er einnig verslunarstjóri í Nola, sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur, kærasta, hundamamma og gestakennari í MOOD Make Up School. Instagram @gunnybirna Snap: gunnhildurb
Vantar þig förðunarráðgjöf, förðun eða vilt koma á námskeið? Sendu mér póst á gunnhildur@pigment.is

Alpha girls